Faðir Helga var Hafliði Baldvinsson, bróðir Jóns Baldvinssonar, sem var forseti Alþýðusambandsins og þar með formaður Alþýðuflokksins fyrstu tvo áratugina og rúmlega það. Þeir skiptu með sér verkum, þessir bræður að vestan. Annar sá alþýðu manna fyrir hollri næringu við vægu verði; hinn barðist fyrir bættum kjörum hins stritandi lýðs samkvæmt boðorðinu, að verður væri verkamaðurinn launanna.
HELGI HAFLIÐASON – MINNING
Á árunum upp úr fyrra stríði stóð opinn fiskmarkaður Reykvíkinga, þar sem nú er vinsælasti veitingastaður borgarinnar – Bæjarins besta – við Tryggvagötu. Árið 1922 – árið sem Helgi frændi minn, Hafliðason, fæddist fyrir áttatíu og fjórum árum – byrjaði faðir hans að selja reykvískum húsmæðrum ferskan fisk beint af kerrunni. Þetta var upphafið að Fiskbúð Hafliða, sem alla tíð síðan hefur verið stofnun í bæjarlífinu, hvernig svo sem allt annað hefur velkst og horfið í tímans ólgusjó. Fiskbúð Hafliða var einn af þessum föstu púnktum í tilverunni, sem stóð af sér áreiti tímans.