Víst er það, að tónlistin er æðst allra listgreina. Hún er eina tungumálið, sem mannkynið á sameiginlegt þvert á þjóðerni og landamæri. Í samanburði við tónlistina er pólitíkin – list hins (ó)mögulega – lítillát aukabúgrein. Samt hefur tónlistin á stundum blómstrað í skjóli upplýstra stjórnvalda. Hið eiginlega stórveldistímabil Þýskalands er kennt við Bach og Beethoven fremur en við Bismark.
ATHAFNASKÁLD Á ALÞINGI
Frægasti konsertpíanisti Pólverja á fyrri hluta seinustu aldar hét Paderevski. Þegar pólska ríkið var endurreist við lok fyrra stríðs, vildu Pólverjar virkja frægðarljóma tónsnillingsins sér til framdráttar, og gerðu hann að fyrsta forseta hins endurreista ríkis. Sem slíkur mætti Paderevski f.h. Pólverja á friðarráðstefnuna í Versölum til fundar við aðra þjóðaleiðtoga. Þegar hann var kynntur fyrir Clemenceau, forsætisráðherra Frakka, heilsaði forsætisráðherrann honum virðulega, en sagði síðan með votti af franskri kaldhæðni: “Aha, tónlistarsnillingur orðinn að pólitíkus – er þetta ekki mikil lækkun í tign?”