Að því er varðar hina pólitísku ábyrgð á öförum þjóðarinnar, þá er það rétt, að sökudólgalistinn er býsna langur, ef öllu væri til skila haldið. Ég lít svo á, og styðst þá við eigin pólitíska reynslu, að oddvitar ríkisstjórna, þ.e. formenn samstarfsflokka í samsteypustjórnum, beri höfuðábyrgð. Það var á þeirri forsendu, sem ég setti fram þá kröfu fyrir seinustu kosningar, að Ingibjörg Sólrún ætti að sjá sóma sinn í að draga sig í hlé. Rugludallar báru mér á brýn af því tilefni, að ég gerði mig sekan um mannvonsku við veika konu. Nær væri að líta á mig sem velgjörðarmann, því að þetta varð ISG sjálfri til góðs, fyrir utan að vera Samfylkingunni pólitískt nauðsynlegt. Flest bendir til, að Björgvin Sigurðrson hafi verið pólitískur liðléttingur í Viðskiptaráðuneytinu, enda skilst mér að hann hafi verið sniðgenginn, ekki bara af Geir og Davíð, heldur jafnvel af ISG sjálfri.
Svar til Jóns Þórs Helgasonar
Heill og sæll, Jón Þór.
Að því er varðar þá kenningu að regluverk ESB sé einhver orsakavaldur að Icesave-reikningnum, þá bendi ég þér á hjálagða grein, þar sem þessi kenning er einfaldlega hrakin.