Um formannskjör í Samfylkingu: OPIÐ BRÉF TIL JÓHÖNNU

Frá Jóni Baldvini Hannibalssyni

Í framhaldi af þeirri ákvörðun Inigibjargar Sólrúnar Gísladóttur að draga sig í hlé frá stjórnmálum um sinn a.m.k., er ljóst að landsfundur SF verður að velja flokknum nýjan formann í aðdraganda kosninga til næstu tveggja ára.

Þú hefur þegar tekið að þér að leiða minnihlutastjórn SF og VG fram að kosningum. Í því felst að þar með hefur þú í reynd einnig tekið að þér það hlutverk að leiða Samfylkinguna í kosningabaráttunni. Enginn véfengir að í þessum erfiðu verkum nýtur þú óskoraðs trausts samherja þinna og meirihluta þjóðarinnar.

Lesa meira

EFNAHAGSLEGT FJÖLDASJÁLFSMORÐ?

Það er skammt stórra högga á milli. Michael Lewis skrifar listilega satíru (háðsádeilu) í Vanity Fair um að frjálshyggjutilraunin með Ísland hafi endað með efnahagslegu “fjöldasjálfsmorði.” Hann hafði varla fyrr sleppt orðinu en amerískur (frjálshyggju)hagfræðingur, Kenneth Rogoff, varar þessa allt að því dauðvona þjóð við því að binda trúss sitt við Evrópusambandið. Rogoff birti varnaðarorð sín í viðtali við Boga Ágústsson hjá RÚV. Hann notaði líka stór orð – gott ef hann sagði ekki líka “sjálfsmorðstilraun.” Um þetta má í besta falli segja að betra er illt umtal (í útlöndum) en ekkert.

Eftir stóryrðin fór það hins vegar fram hjá flestum að Rogoff taldi öðru máli gegna, ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu og evrusamstarfinu um skeið. Það staðfestir að prófessornum er, þrátt fyrir allt, ekki alls varnað. Rogoff var tíðrætt um að heimskreppan, sem átti uppruna sinn í frjálshyggjutilrauninni amerísku, væri að breiðast út um heiminn og að aðildaríki Evrópusambandsins hefðu ekki farið varhluta af því. Hins vegar hefur láðst að upplýsa manninn um það, að af þeim 30 þjóðum, sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu (27+3) , er aðeins ein, sem lent hefur í kerfishruni. Þar fer saman allt í senn: Hrun gjaldmiðilsins, hrun fjámálakerfisins og stjórnmálakreppa, sem sumir segja að nálgist að vera stjórnkerfiskreppa. Þetta land er Ísland.

Lesa meira

“ÓÐUR TIL ÚTLAGANS”

Hvað á að gera þegar maður snýr að lokum aftur heim að nálgast fertugt, staurblankur, atvinnulaus og fráskilinn, án þess að hafa fengið nokkuð sem heitið getur gefið út og manns nánustu ýmist elliærir eða dauðir? Maður byrjar að skrifa. Og smám saman finnur maður aftur sjálfan sig og fer að yrkja ljóð og mála myndir í tungumálið af þessum gömlu íslensku innflytjendum, frændum og frænkum, sem mann fram af manni geymdu heimalandið í hjartastað, þótt örlögin hefðu sent þau forsendingu í þetta framandlega pláss ái sléttunni í miðpunkti Ameríku þar sem er jafnlangt en svo óralangt til beggja stranda.

Svona byrjaði rithöfundarferill Bills Holm sem var mestur rithöfundur íslenskur á enska tungu um okkar daga. Bill var ljóðskaldið sem skrifaði svo magnaðan prósa að hann vakti hina dauðu til lífsins. Mannlífslýsingar dregnar fáum sterkum dráttum vekja til lífsins persónur sem gætu borið uppi nýjar Íslendingasögur. Sagan af konunni sem ól önn fyrir öllum hinum í þorpinu, hjúkraði hinum sjúku, annaðist hina öldruðu í einsemd þeirra og fóstraði ungviðið, sagan sú er af þessu taginu. Þegar hún svo féll frá eftir fórnfúst starf og langa ævi kom á daginn að þessi kona las heimsbókmenntir á fjórum eða fimm tungumálum og spilaði músík sem var ættuð úr konsertsölum heimsborganna og hafði aldrei heyrst í endalausri flatneskju lággróðursins á gresjunni.

Lesa meira

Prófkjör – netkosning

Prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir kosningarnar í lok apríl er þegar hafið og því lýkur laugardaginn 14. mars.

Kjörstaður verður opinn í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar á Skólabrú við Austurvöll.
Kjörstaðurinn verður opinn 9. – 13. mars kl. 14 – 20 alla dagana. Laugardaginn 14. mars verður opið kl. 9 – 18.

Einnig er hægt er að greiða atkvæði á netinu.
Smellið hér til að greiða netatkvæði í prófkjörinu.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar eru:

Það á að vera einn skipstjóri um borð.

Fyrstu viðbrögð mín við þeirri ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að draga sig í hlé frá stjórnmálum af heilsufarsástæðum eru þau að óska þess af heilum hug að hún geti nú einbeitt sér að því að ná fullri heilsu á ný. Heilsan er það dýrmætasta sem hver manneskja á. Enginn skyldi útiloka það að Ingibjörg Sólrún, sem er kona á besta aldri, eigi afturkvæmt í stjórnmál á ný, hneigist hugur hennar til þess eftir að hún hefur aftur náð fullum bata.

Nú er ljóst að þeir þrír stjórnmálaflokkar sem ábyrgð hafa borið á stjórn landsins á örlagatímanum frá einkavæðingu fram að hruni, munu ganga til kosninga undir nýrri forystu. Þótt spurningin um póitíska ábyrgð flokksleiðtoga og ríkisstjórnaroddvita á búsifjum eins og íslenska þjóðin hefur mátt þola, sé ekki þar með útkljáð, auðveldar þetta frambjóðendum að einbeita sér að umræðu um framtíðarlausnir fremur en að dvelja um of við fortíðina.

Lesa meira

Hvað er til ráða eftir hrun? Húsfyllir í Norræna húsinu.

Þrátt fyrir bjart og fagurt vetrarveður í gær, laugardaginn 7. mars, var fullt út úr dyrum á fundinum sem ég boðaði til í Norræna húsinu. Þétt setið í salnum svo að það þurfti að raða upp aukastólum í anddyrinu. 160 manns að sögn húsráðenda. Fundarefnið var:
HVAÐ ER TIL RÁÐA EFTIR HRUN?

Ég leitaði svara við mörgum spurningum sem nú brenna á fólki:

Lesa meira

Eimreiðarhópurinn: Who is who í valdakerfinu

Kafli úr ræðu Jón Baldvins, sem hann mun flytja á opnum fundi í Norræna húsinu á morgun kl. 14:00.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Þeir ungu menn sem gerðust handgengnir nýfrjálshyggjunni hér á landi mynduðu snemma með sér félagsskap sem gekk undir nafninu Eimreiðarhópurinn. Það er athyglisvert að þeir þrír einstaklingar sem verið hafa formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrar í umboði hans s.l. aldarfjórðung tilheyrðu allir þessum félagsskap. Hafi Davíð Oddsson verið hinn ókrýndi leiðtogi hópsins þá var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hugmyndafræðingurinn, eins konar Suslov, en Kjartan Gunnarsson var apparatchíkinn, framkvæmdastjóri Flokksins. Þegar litið er yfir nafnalistann lítur hann út eins og Who is Who yfir valdakerfi Sjálfstæðisflokksins s.l. áratugi.

Lesa meira

FRÉTTATILKYNNING

Jón Baldvin boðar til borgarafundar í Norræna húsinu, laugardaginn, 7. mars, kl. 14:00.

Umræðuefni:
HVAÐ ER TIL RÁÐA EFTIR HRUN?

Þarna mun JBH fjalla um þá möguleika sem Íslendingum standa til boða eftir hrun efnahagslífsins. Hann mun fjalla um Evrópumál og upptöku evru, einkum með hliðsjón af sérkennilegum ummælum Dr. Kenneth Rogoff um upptöku evru í viðtalsþætti í sjónvarpinu hjá Boga Ágústssyni á þriðjudaginn. Þar fjallaði prófessorinn frjálslega um að evra hefði orðið okkur til trafala síðasta haust. Síðar í þættinum lýsti Dr. Rogoff hins vegar yfir að hann þekkti ekki íslenskt efnhagslíf nægjanlega vel til að geta rætt það í þaula!

Að Framsögu lokinni svarar Jón Baldvin spurningum úr sal.

Stuðningsmenn.

PÓLITÍSK ÁBYRGÐ?

Jón Ólafsson, lærdómsmaður að Bifröst, vandar um við mig í pistli sínum fyrir að gera ekki tilhlýðilegan greinarmun á ráðherraábyrgð og ábyrgð flokksformanns. Það getur vel verið að á þessu tvennu sé einhver munur þótt rökstuðningur J.Ól. fyrir því sé lítt sannfærandi. Og þegar hann sakar mig um að “rugla saman … fullkomlega óskyldum tegundum siðferðilegrar ábyrgðar,” er hann áreiðanlega farinn að fullyrða meira en hann getur staðið við.

Samkvæmt leikreglum lýðræðisins er stjórnmálamönnum skylt að leggja mál sín reglulega “í dóm kjósenda.” Öfugt við embættismenn, t.d. bera þeir ábyrgð frammi fyrir kjósendum. Þetta á við um alþm. og ráðherra, sem skv. íslenskri hefð eru oftast sama persóna. Þessu til viðbótar ber að nefna landsdóm, sem er sérstakur dómstóll sem á að dæma um afglöp ráðherra í starfi. Merkilegt nokk hefur sá dómstóll ekki haft mikið að gera á Íslandi.

Lesa meira