Það er skammt stórra högga á milli. Michael Lewis skrifar listilega satíru (háðsádeilu) í Vanity Fair um að frjálshyggjutilraunin með Ísland hafi endað með efnahagslegu “fjöldasjálfsmorði.” Hann hafði varla fyrr sleppt orðinu en amerískur (frjálshyggju)hagfræðingur, Kenneth Rogoff, varar þessa allt að því dauðvona þjóð við því að binda trúss sitt við Evrópusambandið. Rogoff birti varnaðarorð sín í viðtali við Boga Ágústsson hjá RÚV. Hann notaði líka stór orð – gott ef hann sagði ekki líka “sjálfsmorðstilraun.” Um þetta má í besta falli segja að betra er illt umtal (í útlöndum) en ekkert.
Eftir stóryrðin fór það hins vegar fram hjá flestum að Rogoff taldi öðru máli gegna, ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu og evrusamstarfinu um skeið. Það staðfestir að prófessornum er, þrátt fyrir allt, ekki alls varnað. Rogoff var tíðrætt um að heimskreppan, sem átti uppruna sinn í frjálshyggjutilrauninni amerísku, væri að breiðast út um heiminn og að aðildaríki Evrópusambandsins hefðu ekki farið varhluta af því. Hins vegar hefur láðst að upplýsa manninn um það, að af þeim 30 þjóðum, sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu (27+3) , er aðeins ein, sem lent hefur í kerfishruni. Þar fer saman allt í senn: Hrun gjaldmiðilsins, hrun fjámálakerfisins og stjórnmálakreppa, sem sumir segja að nálgist að vera stjórnkerfiskreppa. Þetta land er Ísland.
Lesa meira