Al Gore: The Assault on Reason
The Penguin Press, N.Y., 2007, 308 bls..
Ef Al Gore, þáverandi varaforseti og frambjóðandi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000, hefði unnið kosningarnar, eins og öll rök stóðu til, hefði hann ekki þurft að skrifa þessa bók. Al Gore hafði verið einn áhrifamesti varaforseti í sögu þess vandræðalega embættis, (a.m.k. fram að tíð Cheneys, núverandi varaforseta, sem flestir álíta meiri þungavigtarmann en meintan húsbónda í Hvíta húsinu). Bill Clinton naut almennra vinsælda sem forseti og hefði auðveldlega fengið umboð kjósenda þriðja kjörtímabilið í röð, væri það leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni. Clinton og Gore höfðu skilað góðu búi. Það var uppgangur í efnahagslífinu, sem var drifinn áfram af tæknibyltingu, sem jók framleiðni og samkeppnishæfni bandarískra fyrirtækja og dró um leið úr atvinnuleysi. Viðvarandi fjárlagahalla hafði verið snúið upp í fimm trilljón dala tekjujöfnuð. Það blés því byrlega fyrir Al Gore.
Keppinautur hans af hálfu republíkana, fráfarandi ríkisstjóri í Texas, hafði af litlu að státa. Hann hafði verið drykkfelldur dekurdrengur og mislukkaður bissnissmaður, sem hafði sloppið frá gjaldþroti fyrir atbeina föður síns og vina hans. En hann hafði frelsast fyrir náð Jesús og snúið til betri vegar. En þessi fákunnandi og reynslulausi einfeldningur frá Texas, sem hafði komið einu sinni til útlanda (til Mexíkó), virtist lítið erindi eiga í hendurnar á Al Gore. Gore var þrautreyndur stjórnmálamaður eftir langa setu í fulltrúadeildinni og Senatinu, auk þess sem hann hafði bakað skæðari keppinauta en Bush í frægum sjónvarpseinvígum, þeirra á meðal menn eins og Senator Bradley og Ross Perot.
Lesa meira