AÐ ÚTRÝMA FÁTÆKT EÐA FRIÐA SAMVISKUNA

Á bökkum Karlsárinnar í Boston stendur lítt áberandi minnismerki um fiskimanninn sem skyggnir hönd fyrir augu og horfir til hafs. Á stöplinum stendur skrifað eitthvað á þessa leið: Gefirðu manni einn fisk, getur hann satt hungur sitt þann daginn; en kennirðu honum að fiska, þá hefur hann lært að sjá sér og sínum farborða til frambúðar.

Þetta er það sem þróunaraðstoð á að snúast um: Að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Nú til dags er þetta kallað sjálfbær þróun. Leiðtogar ríku þjóðanna, sem eru fulltrúar u.þ.b. sjötta parts jarðarbúa, hafa ítrekað heitið því við drengskap sinn að veita 0.7% af þjóðarframleiðslu sinna ríku þjóða til þróunaraðstoðar við hinar fátæku. Þeir hafa svikið þessi loforð, allir með tölu – nema ríkisstjórnir jafnaðarmanna í Svíþjóð, Noregi, Danmörku ogHollandi.

Lesa meira

FRÁ PRAG TIL VILNU – PUNKTAR ÚR UMRÆÐUM

Af hverju er ekkert lýðræði í Rússlandi?
Með byltingu er átt við það að nýr valdahópur ryður þeim gamla úr vegi, þannig að það verða skýr skil milli þess sem var og þess sem verður. Þetta gerðist ekki í Rússlandi 1991. Kannski er ástæðan sú að breytingin varð að mestu leyti friðsamleg. Gömlu valdaklíkunni – nomenklatúrunni – var ekki rutt úr vegi með vopnavaldi. Í raun og veru var sovétkommúnisminn bara einkavæddur; hann skipti um kennitölu ef svo má segja.

Gömlu sovétforstjórarnir urðu að ofurríkum ólígörkum, sem sölsuðu undir sig auðlindum þjóðarinnar. Og hverjir sitja í Kreml? Gamla KGB- klíkan er komin aftur og ræður nú lögum og lofum. Hún beitir sömu aðferðum og áður, enda kann hún ekkert annað: Hún starfar með leynd, hún stjórnar allri upplýsingamiðlun (censor) , hún beitir valdinu til að kúga einstaklinga til hlýðni (fjármálastofnanir, dómstólar). Og hún ræður fjölmiðlunum. Vissulega efnir hún til kosinga – en það gerði Stalín líka.Er þetta lýðræði? Nei, þetta er sú tegund valdstjórnar (e.authoritarianism) sem byggir á rússneskum hefðum, frá keisaranum til KGB. Eftir upplausnarástandið á tímum Gorbachevs og Yeltsins láta þessir menn stjórnast af sterkri löngun til að endurreisa völd og áhrif rússneska nýlenduveldisins. Olíubúmið hefur gert þeim kleift að fjármagna fyrirtækið. Vígvöllurinn, þar sem úrslitin munu ráðast, heitir Úkraína…

Lesa meira

VORIÐ Í PRAG – HRUN SOVÉTRÍKJANNA HAFA FRELSISHETJURNAR RISIÐ UNDIR VÆNTINGUM?

Í vestari helft Evrópu lauk seinni heimstyrjöldinni árið 1945. Það kostaði margar þjóðir Evrópu ómældar blóðfórnir að leggja óvætt þýska nazismans að velli. Flestar þjóðir Evrópu urðu fyrr eða síðar fórnarlömb þýska nazismans. Það er partur af harmleik þessara tíma að þjóðir Sovétríkjanna, sem færðu þungbærari fórnir en flestar aðrar í mannslífum og stríðseyðileggingu, voru dæmdar til þess á stund sigursins að þjást áfram undir ógnarstjórn Stalíns.

Í Vestur-Evrópu létu leiðtogar eftirstríðsáranna sér endalaus bræðravíg Evrópuþjóða öldum saman loksins að kenningu verða. Hugmyndin um það að takmarka getu þjóðríkjanna til að heyja styrjaldir með því að leggja auðlindir hergagnaiðnaðarins undir sameiginlega stjórn og gera þær þannig óafturkallanlega innbyrðis háðar hver annarri, er það besta sem gerst hefur í Evrópu frá ómunatíð. Fæðing Evrópuhugmyndarinnar hefur gefið gömlu Evrópu, eftir brotlendingu tveggja heimstyrjalda sem báðar áttu rætur að rekja til evrópskra stjórnmála, nýja lífsvon.

Lesa meira

HÁSKÓLINN Á BIFRÖST – MÁLÞING Í IÐNÓ: ER HÆGT AÐ LÆRA TIL FORSÆTISRÁÐHERRA?

Það stendur hvergi skrifað, svo ég viti – hvorki í dönsku stjórnarskránni né í stjórnsýslulögum – að forsætisráðherrann þurfi að hafa hæfnisvottorð upp á vasann. Embætti forsætisráðherra er m. ö. o. eitt af örfáum djobbum, sem eftir eru á vinnumarkaðnum, þar sem ekki er krafist prófskírteinis.

Þú þarft sumsé ekki að hafa bréf upp á það. Enda er djobbið undanþegið auglýsingaskyldu. Það eru engin eyðublöð til að fylla út og engin dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda. Þjóðin er ekki einu sinni spurð álits. Það eru formenn samstarfsflokka í ríkisstjórn, sem semja sín í milli um það, hver hreppir hnossið.

Lesa meira

AL GORE GEGN AMRÍSKA HEIMSVELDINU

Al Gore: The Assault on Reason
The Penguin Press, N.Y., 2007, 308 bls..

Ef Al Gore, þáverandi varaforseti og frambjóðandi í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000, hefði unnið kosningarnar, eins og öll rök stóðu til, hefði hann ekki þurft að skrifa þessa bók. Al Gore hafði verið einn áhrifamesti varaforseti í sögu þess vandræðalega embættis, (a.m.k. fram að tíð Cheneys, núverandi varaforseta, sem flestir álíta meiri þungavigtarmann en meintan húsbónda í Hvíta húsinu). Bill Clinton naut almennra vinsælda sem forseti og hefði auðveldlega fengið umboð kjósenda þriðja kjörtímabilið í röð, væri það leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni. Clinton og Gore höfðu skilað góðu búi. Það var uppgangur í efnahagslífinu, sem var drifinn áfram af tæknibyltingu, sem jók framleiðni og samkeppnishæfni bandarískra fyrirtækja og dró um leið úr atvinnuleysi. Viðvarandi fjárlagahalla hafði verið snúið upp í fimm trilljón dala tekjujöfnuð. Það blés því byrlega fyrir Al Gore.

Keppinautur hans af hálfu republíkana, fráfarandi ríkisstjóri í Texas, hafði af litlu að státa. Hann hafði verið drykkfelldur dekurdrengur og mislukkaður bissnissmaður, sem hafði sloppið frá gjaldþroti fyrir atbeina föður síns og vina hans. En hann hafði frelsast fyrir náð Jesús og snúið til betri vegar. En þessi fákunnandi og reynslulausi einfeldningur frá Texas, sem hafði komið einu sinni til útlanda (til Mexíkó), virtist lítið erindi eiga í hendurnar á Al Gore. Gore var þrautreyndur stjórnmálamaður eftir langa setu í fulltrúadeildinni og Senatinu, auk þess sem hann hafði bakað skæðari keppinauta en Bush í frægum sjónvarpseinvígum, þeirra á meðal menn eins og Senator Bradley og Ross Perot.

Lesa meira

KOLLA OG KÚLTÚRINN FIMMTÍU ÁRA

Auðvitað átti Mál og menning að heiðra Kollu og kúltúrinn í tilefni af þessu stórafmæli með því að gefa út bók með úrvali af viðtölum Kollu við mannfólkið. Þá hefðum við séð það svart á hvítu, sem mörgum okkar hefur lengi boðið í grun, að Kolla væri besti viðtalshöfundur samtímans. A.m.k. eftir að Matti Jó hætti að birta sexopnuviðtöl við Rostropovits um kalda stríðið í kúltúrnum undir fyrirsögninni: Í fáum orðum sagt.

Að öðru leyti verður að viðurkenna, að samkeppnin í viðtalabransanum er ekki mjög hörð hér á landi. Flestir fjölmiðlar íslenskir virðast starfa samkvæmt þeirri grundvallarreglu að tala bara við fólk, sem hefur ekkert að segja. Það er af því að þótt svoleiðis textar freisti ekki lesenda, þá fæla þeir alla vega ekki frá auglýsendur. Kolla er aftur á móti hinsegin. Hún spyr bara spurninga, sem skipta máli, en hefur ekki áhuga á hinu. Það er varla til sá andlegi trédrumbur, að hann vakni ekki til einhvers konar vitundar í viðtali við Kollu. T.d. tókst henni nýlega að láta formann FL Group líta út eins og mann, af því að það hvarflaði ekki að henni að spyrja hann út í það eina, sem hann hefur vit á, nefnilega peninga.

Lesa meira

Á ÉG AÐ GÆTA BRÓÐUR MÍNS?

Þorgrímur Gestsson: Öryggissjóður verkalýðsins – Baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. 316 bls. Útgefandi: Atvinnuleysistryggingasjóður.

Þótt þessi bók sé harla ólíkleg til að ná inn á metsölulista bókaútgefenda, er hún samt áhugaverð um margt og kannski einmitt þess vegna. Í fyrsta lagi er hún áhugaverð vegna þess að hún lýsir hugmyndafræðilegum ágreiningi milli ráðandi stjórnmálaafla um uppbyggingu velferðarríkis á Íslandi. Hún skýrir líka, hvers vegna jafnaðarmönnum á Íslandi tókst ekki að fá lög um atvinnuleysistryggingar virk í framkvæmd fyrr en árið 1956, hálfri öld síðar en í Danmörku og Noregi og löngu eftir að atvinnuleysistryggingar voru lögfestar í Finnlandi (1917) og í Svíþjóð (1938).

Reyndar voru atvinnuleysistryggingar hluti af löggjöfinni um almannatryggingarnar, sem Haraldur Guðmundsson, fyrsti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, náði fram á þinginu 1935-36. En kaflinn um atvinnuleysistryggingar sætti svo harðri andstöðu forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og tók svo miklum breytingum í meðförum þingsins , að lögin máttu heita óvirk í framkvæmd. Þótt árstíðarbundið atvinnuleysi mætti heita fastur liður í lífi sjávarplássanna og langvarandi atvinnuleysi hrjáði mörg alþýðuheimili á kreppu- og samdráttartímum, treystu verkalýðsfélögin sér ekki til að leggja þær kvaðir – iðgjöld – á fátækt verkafólk, sem þurft hefði til að virkja lögin.

Lesa meira

ÞAÐ EINA SEM ÞEIR SKILJA

Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda, og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Til þess er lýðræðið og réttarríkið að koma í veg fyrir spillingu valdaeinokunar. Hvorugt er sjálfgefið. Hvorugt hefur áunnist í eitt skipti fyrir öll. Aðhald að valdhöfum krefst stöðugrar árvekni kjósenda, stjórnarandstöðu, fjölmiðla. Vald kjósenda er í því fólgið að geta skipt út valdhöfum með reglulegu millibili. Það kemur í veg fyrir, að valdhafarnir umgangist valdið sem sjálfgefið.

Lesa meira

TIL UMHUGSUNAR FYRIR KJÓSENDUR, ÁÐUR EN GENGIÐ ER AÐ KJÖRBORÐINU:TÍU ÁSTÆÐUR TIL AÐ SKIPTA UM VALDHAFA

Kosningar snúast um að velja fulltrúa til að fara með völd. Valdið er vandmeðfarið. Það er sagt, að allt vald spilli. Og að allsherjarvald spilli algerlega. Valdhafar sem venjast því, að þeir séu fæddir til valda og að fátt eða ekkert geti hróflað við völdum þeirra, ganga yfirleitt á lagið. Það býður spillingunni heim.

Eins flokks kerfi er yfirleitt gerspillt, jafnvel þótt kosningar fari fram til málamynda. Ef sami valdahópurinn ræður ríkisvaldinu, sveitarstjórnum og fjölmiðlum, og hefur auk þess sterk ítök í fjármálalífinu, er hætt við, að valdið stígi honum til höfuðs. Að hann telji sig smám saman hafinn yfir almennar leikreglur. Og komist upp með hvað sem er.

Lesa meira