VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.
“Það er bjargföst sannfæring mín, að samábyrgt velferðarsamfélag í anda þess besta, sem við þekkjum að norrænni fyrirmynd, sé þróaðasta samfélagsskipan, sem enn hefur litið dagsins ljós á jörðinni… Hvergi í heiminum er betra að búa, hvergi er betra að ala upp börn, hvergi er betra að lifa lífinu og hvergi er betra að verða gamall heldur en í norrænu velferðarsamfélögunum.”
(Steingrímur J. Sigfússon: Við öll, bls. 200)<(i>
Ef maður vissi ekki, að ofangreind tilvitnun er úr stefnuskrárriti formanns Vinstri-grænna, gæti maður haldið, að formaður Alþýðuflokksins forðum daga væri að tala. Eða einhver innmúraður og innvígður eðalkrati af Norðurlöndum, sem hljómaði svona í íslenskri þýðingu. Alla vega er þetta sósíaldemókratískt manifesto – lífsskoðun jafnaðarmanns – í hnotskurn. Samt vill Steingrímur alls ekki gangast við því að vera krati. Hann vegsamar þá samfélagsgerð, sem er skilgetið afkvæmi sósíaldemókratískrar hugmyndafræði og hundrað ára baráttu jafnaðarmannaflokka og verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum. En samt vill hann ekki vera við þá kenndur.
VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.
Hvers vegna ekki? Hann vill láta kalla sig róttækan jafnaðarmann. En hvað er svona voðalega róttækt við Steingrím Jóhann? Að vera á móti NATO og her í landi, eftir að herinn er farinn? Er það ekki bara svona dejá vu upp á frönsku – búið mál? En að yfirbjóða búverndarstefnu Framsóknar, sem Halldór Laxness kenndi einu sinni við “Hernaðinn gegn landinu” – búverndarstefnu, sem í alþjóðlegu samhengi heldur helmingi jarðarbúa í heljargreipum örbirgðar – hvað er svona róttækt við það?
Lesa meira