Stríðið sem geisaði á bak við tjöldin um yfirráð yfir DV er lærdómsríkur kafli í fjölmiðlasögunni. Sú saga snýst um það, hvernig áhrifarík öfl í viðskiptalífinu – í nánum tengslum við ráðandi flokk fjármagnseigenda – svífast einskis til að kaupa sér völd og áhrif og tryggja eigin hagsmuni. Jónas – með Svein að bakhjarli – bauð þessum öflum birginn.
Jónas Kristjánsson
Jónas Kristjánsson var einn hinna fáu útvöldu, sem setti sterkan svip á samtíð sína. Hann var óumdeilanlega frumkvöðull í íslenskri fjölmiðlun og vissulega umdeildur sem slíkur. Samstarf hans og Sveins Eyjólfssonar á Dagblaðinu vakti storma og stríð. Eftir á að hyggja táknaði það kaflaskipti í sögu íslenskrar fjölmiðlunar.