Aldursmunurinn á okkur samsvaraði tveimur menntaskólakynslóðum, tæpum átta árum. Þegar ég var enn á mínum marxísku sokkabandsárum að lesa utanskóla við MR, var Björgvin löngu byrjaður að láta til sín taka sem vinnuþjarkur í þjónustu jafnaðarstefnunnar. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu meðfram námi í viðskiptafræði við háskólann, formaður Stúdentaráðs og formaður Sambands ungra jafnaðarmanna í framhaldi af því. Þessi atvæðamiklu ungi maður átti síðar eftir að sitja í flokkstjórn Alþýðuflokksins á fjórða áratug. Alltaf til staðar. Alltaf til þjónustu reiðubúinn.
Björgvin Guðmundsson; Minning
Hann var jafnaðarmaður í húð og hár – ekta sósíaldemókrat – til hinsta dags. Vinnuþjarkur, sem féll aldrei verk úr hendi. Það lýsir manninum vel, að í vikunni, áður en hann kvaddi, var hann að ganga frá seinustu grein sinni með raunsæjum tillögum um, hvernig eigi að rétta hlut aldraðra, svo að velferðarríkið íslenska nái að rísa undir nafni.