Ingibjörg Björnsdóttir, minning

Ég var fjarri fósturjarðarströndum þann 19. ágúst s.l., þegar Ingibjörg Björnsdóttir var kvödd hinstu kveðju. En mér rennur bóðið til skyldunnar að minnast hennar fáeinum vel völdum orðum,  því að hún var eftirminnilegur samstarfsmaður minn þann skamma tíma,  sem ég gegndi embætti fjármálaráðherra (1987-88).

Það var stuttur tími, en við bættum það upp með því að koma gríðarlega miklu í verk. Orðið „skattkerfisbylting“ er ekki fjarri sanni. Seinna, þegar ég lýsti þessari kerfisbreytingu á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda, sagði sænskur starfsbróðir, Kjell-Olov Feldt, að í Svíþjóð hefðu svo umfangsmiklar breytingar í ríkisfjármálum tekið a.m.k. 9 ár.

Lesa meira

Kjartan Jóhannsson, minning

Ísafjörður og Hafnarfjörður – þessi tvö bæjarfélög – skipa sérstakan sess í sögu jafnaðarstefnunnar á Íslandi.

Í báðum þessum bæjarfélögum fóru jafnaðarmenn með meirihlutavald svo til óslitið í aldarfjórðung, lengst af á krepputímum.

Í báðum þessum bæjarfélögum náðist óvenjulegur árangur við að vinna bug á helsta böli kreppuáranna – atvinnuleysinu. Það tókst í krafti samtakamáttar vinnandi fólks og þótti til fyrirmyndar um land allt.

Flestir forystumenn jafnaðarmanna á landsvísu voru fóstraðir í ranni rauðu bæjanna, Hafnarfjarðar og Ísafjarðar. Þeir vísuðu veginn.

Lesa meira

Lára Hafliðadóttir, frá Ögri. Minning

Sögusviðið er við Djúp vestur um miðbik seinustu aldar. Það var voraldarveröld, árla sumars, allt iðandi af lífi. Mínir grönnu unglingsfingur höfðu þénað sem ljósmóðurlíkn við sauðburðinn og fengið hlýlegt kurr og blauta snoppu á vangann í þakklætisskyni.

Við vorum nýkomnir heim í Ögur eftir að hafa legið úti í Ögurhólmum. Andarunganrir voru komnir á stjá, svo að við máttum hirða dúninn úr hreiðrunum, milli þess sem við svolgruðum í okkur úr hráum kríueggjum, hver í kapp við annan. Í staðinn  áttum við yfir höfðum okkar grimmilega hefnd kríunnar, sem er mesti kvenvargur norðurhvelsins.

Lesa meira

Atli Heimir Sveinsson; minning

Við munum það, eins og gerst hafi í gær. Seinasta lag fyrir fréttir. Þulurinn sagði hátíðlegri röddu: Ljóðið er eftir Jóhannes úr Kötlum, en lagið eftir Atla Heimi Sveinsson, tónskáld.

Hann var 15 ára. Þar með var þessi bráðgeri bekkjarbróðir stiginn upp á Olympstind, þar sem fyrir sátu höfuðsnillingar mannsandans. Alla tíð síðan hefur Atli Heimir staðið við fyrirheit æskumannsins. Höfundarverk hans er svo mikið og fjölskrúðugt að furðu sætir. Að baki bjó skapandi hugur og óbilandi viljastyrkur.

Að loknu stúdentsprófi lá leið hans til Þýskalands, landsins sem kennt er við Heine og Hitler, Göthe og Göbbels. Þjóðverjar voru að skríða upp rústum stríðsins, eftir að hafa tapað glórunni í sjálfstortímingaræði nazismans. Atli varð innvígður í tónlistarhefð þýska menningarheimsins, sem stendur engum að baki. En hann var einskis manns hermikráka. Atli var skapandi hugsuður undir aga tónlistarformsins og kenndi til í tilfinningaróti tvíræðrar tilveru, sem einkenndist af ofsa og hraða. En leitaði að lokum hjálpræðis í hinu fagra og friðsæla.

Helförin var Húnunum í fersku minni. Menntaðasta þjóð Evrópu hafði hrokkið af hjörunum og hrasað út í botnlausa villimennsku. Stockhausen, meistari Atla Heimis, skildi samtíma sinn: Öld öfga, ofbeldis og tortímingar. Atli skildi það líka. Og funi og fjör æskumannsins bauð ekki upp á neinar málamiðlanir.

Lesa meira

Björgvin Guðmundsson; Minning

Hann var jafnaðarmaður í húð og hár – ekta sósíaldemókrat – til hinsta dags. Vinnuþjarkur, sem féll aldrei verk úr hendi. Það lýsir manninum vel, að í vikunni, áður en hann kvaddi, var hann að ganga frá seinustu grein sinni með raunsæjum tillögum um, hvernig eigi að rétta hlut aldraðra, svo að velferðarríkið íslenska nái að rísa undir nafni.

Aldursmunurinn á okkur samsvaraði tveimur menntaskólakynslóðum, tæpum átta árum. Þegar ég var enn á mínum marxísku sokkabandsárum að lesa utanskóla við MR, var Björgvin löngu byrjaður að láta til sín taka sem vinnuþjarkur í þjónustu jafnaðarstefnunnar. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu meðfram námi í viðskiptafræði við háskólann, formaður Stúdentaráðs og formaður Sambands ungra jafnaðarmanna í framhaldi af því. Þessi atvæðamiklu ungi maður átti síðar eftir að sitja í flokkstjórn Alþýðuflokksins á fjórða áratug. Alltaf til staðar. Alltaf til þjónustu reiðubúinn.

Lesa meira

Sigurður E Guðmundsson; Minning

„Þú heldur áfram þegar ég er farinn“. Þetta sagði Aldís Pála, kona Sigurðar, við mann sinn skömmu áður en hún lést árið 2007. Hún var að vísa til magnum opus Sigurðar – kórónunnar á ævistarfi hans: „Öryggi þjóðar – frá vöggu til grafar -. Þetta er heitið á stórvirki, um uppruna og sögu velferðarþjónustu á Íslandi frá lokum 19du aldar til loka seinni heimstyrjaldar, sem Sigurður hefur unnið sleitulaust að s.l. áratug, allt til hinsta dags.

Sigurður stóð við þetta áheit konu sinnar. Skömmu eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdarstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, eftir tæplega 30 ára starfsferil þar, bjó hann um sig á Þjóðarbókhlöðunni. Þar sat hann löngum stundum umkringdur stöflum af þingmálum, lagabálkum, skýrslum og greinagerðum um það, hvernig fátækt fólk var smám saman leyst úr fjötrum örbirgðar og öryggisleysis, fyrir tilverknað vaknandi verkalýðshreyfingar og hins pólitíska arms hennar, flokks íslenskra jafnaðarmanna.

Lesa meira

Thorvald Stoltenberg, minning

Framundan var utanríkisráðherrafundur Norðurlanda. Á flugvellinum rakst ég á bók með forvitnilegum titli: Norge – een-parti staat. Ég renndi í gegnum þetta í flugvélinni.

Þegar ég kom á skrifstofu Thorvalds í utanríkisráðuneytinu í Osló, fleygði ég bókinni á borðið hjá honum og sagði: „Nú veit ég allt um ykkur“. Thorvald fletti bókinni lauslega, brosti sínu blíðasta og sagði síðan: „Viltu heldur búa við einræði þeirra?“

Við höfðum ekki tíma til að fara ofan í saumana á málinu þá, en svar Thorvalds sat eftir í huga mér. Eftir því sem tíminn líður, verður mér æ oftar hugsað til þessara orðaskipta og veruleikans, sem að baki býr. Enginn véfengir, að vald fjármagnseigenda, atvinnurekenda, stjórnenda stórfyrirtækja – þeirra sem ráða kapitalinu – er mikið. Þeirra er valdið til að ráða og reka.

Það sem Thorvald meinti er þetta: Ef fármagnið nær líka undir sig pólitíska valdinu, verða fjármagnseigendur í reynd einráðir. Þótt þetta gerist í birtingarmynd lýðræðis, er það í reynd einræði. Þarna förum við að nálgast kjarna málsins. Hið sósíaldemókratiska velferðarríki Norðurlanda – norræna módelið – varð til vegna þess, að samtök launafólks – ekki fjármagnseigenda – og hinn pólitíski armur þeirra, jafnaðarmannaflokkarnir, réðu ferðinni. Þeir settu leikreglurnar. Þeir mótuðu skattakerfið. Þeir tryggðu almenningi aðgang að menntun og heilsugæslu, án tillits til efnahags. Þannig efldu þeir frelsi einstaklingsins í verki.

Lesa meira

Jónas Kristjánsson

Jónas Kristjánsson var einn hinna fáu útvöldu, sem setti sterkan svip á samtíð sína. Hann var óumdeilanlega frumkvöðull í íslenskri fjölmiðlun og vissulega umdeildur sem slíkur. Samstarf hans og Sveins Eyjólfssonar á Dagblaðinu vakti storma og stríð. Eftir á að hyggja táknaði það kaflaskipti í sögu íslenskrar fjölmiðlunar.

Stríðið sem geisaði á bak við tjöldin um yfirráð yfir DV er lærdómsríkur kafli í fjölmiðlasögunni. Sú saga snýst um það, hvernig áhrifarík öfl í viðskiptalífinu – í nánum tengslum við ráðandi flokk fjármagnseigenda – svífast einskis til að kaupa sér völd og áhrif og tryggja eigin hagsmuni. Jónas – með Svein að bakhjarli – bauð þessum öflum birginn.

Lesa meira

Ríkharður Jónsson, minning

Ríkharður ljónshjarta- það hét hann alla vega meðal okkar, aðdáenda hans fyrir vestan. Stundum Rikki hinn ósigrandi. Það leikur enn ljómi um nafnið, 66 árum eftir að hann – nánast einn síns liðs – sigraði ólympíumeistara Svía í landsleik í knattspyrnu árið 1951 – 4:3.

Loksins höfðu Íslendingar sannað, þar sem á reyndi, að þeir væru engir eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða. En af því að knattspyrna á að heita hópíþrótt, var þetta einstaklingsafrek þeim mun ótrúlegra. Hvílíkur galdramaður. Óviðjafnanlegur. Á þessum 90 mínútum skráði Ríkharður nafn sitt óafmáanlega á spjöld Íslandssögunnar. Hafi nokkur einstaklingur gerst fyrirmynd og átrúnaðargoð heillar kynslóðar hins unga lýðveldis, þá var það hann: Skagamaðurinn frækni.

Lesa meira