Ingvar Gíslason, minning

Andlátsfregnin fór fram hjá mér, þar sem ég sit um sinn fjarri heimaslóðum. En ég get ekki látið hjá líða að kveðja þennan eftirminnilega samferðarmann. Ingvar var framsóknarmaður af hinum þingeyska skóla Jónasar frá Hriflu, meðan samvinnuhugsjónin tendraði enn vonir í brjóstum manna.

Ég þekkti nokkuð til hans fólks. Sumarið sem síldin brást 1956 smyglaði ég mér um borð í Þormóð ramma fra Siglufirði. Þar var Kristján, bróðir Ingvars, bátsmaður á minni vakt. Þar um borð sungu menn ættjarðarljóð á Grímseyjarsundi, á meðan gert var að.

Lesa meira

Árni Gunnarsson, minning

Árni Gunnarsson var maður heitra tilfinninga. Rík réttlætiskennd var honum í blóð borin. Hann vildi leggja þeim lið, sem áttu undir högg að sækja og rétta þeim hjálparhönd, sem liðsinnis þurftu við. Hann var m.ö.o. jafnaðarmaður af lífi og sál og drengur góður. Samt var hann aldrei haldinn bölmóði, eins og hendir suma þá, sem vex í augum óréttlæti heimsins. Þvert á móti. Hann trúði á hið góða í manninum. Og gekk bjartsýnn og baráttuglaður að hverju verki. Hann átti auðvelt með að laða fólk til samstarfs, enda betri samstarfsmaður vandfundinn.

Flokkurinn sem Árni aðhylltist ungur að árum hét Alþýðuflokkurinn – og var Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Enginn annar flokkur hefur hrundið í framkvæmd jafnmörgum og jafn róttækum umbótamálum, sem til samans hafa gerbreytt íslensku þjóðfélagi til hins betra.

Lesa meira

Uffe Ellemann Jensen, minning

Þegar fundum okkar Uffe Ellemann Jensen, utanríkisráðherra Dana, bar fyrst saman  haustið 1988 á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, kom brátt á daginn, að við Uffe áttum meira sameiginlegt en við mátti búast. Við vorum allir sósíaldemókratar nema hann, sem var formaður flokks, sem kenndi sig við vinstrið, en var til hægri. Þetta hafði ekkert að gera með pólitík. Við áttum það bara  sameiginlegt að bera takmarkað umburðarlyndi fyrir leiðindum. Því fylgdi  grallaralegt skopskyn, sem þótti á köflum varla selskapshæft.

Að sögn vinar míns, Stoltenbergs  hins norska, missti  Uffe út úr sér eftirfarandi: „ Það væri nú munur fyrir okkur hin að búa við  ráðríki ykkar, krataflokkanna í Norðurlandapólitíkinni, ef þið væruð ekki flestir (alls ekki þú, þó!) svona hrútleiðinlegir.Af hverju getið þið ekki verið meira eins og þessi íslenski?“

Lesa meira

Styrmir Gunnarsson, minning

Hann var sjálfum sér líkur til hinsta dags. Þrátt fyrir heilsuáfall, sem hefði knúið flesta menn til að biðjast vægðar, neitaði hann að gefast upp  fyrr en í fulla hnefana. Hann neytti sinna seinustu krafta til að ljúka við laugardagsgreinina, sem birtist að honum látnum. Þannig var hann allt sitt líf, skyldurækinn og  kröfuharður – en fyrst og fremst við sjálfan sig.

Okkar kynni hófust í öðrum bekk í gaggó, nánar tiltekið í hinum alræmda Skeggjabekk í Laugarnesskólanum. Ég kom að vestan og frá vinstri. Hann kom úr Vesturbænum og lengst til hægri. Okkur lenti saman á fyrsta degi. Sú rökræða hefur senn staðið, með hléum,  í meira en hálfa öld. Henni var enn ekki lokið, þegar fundum okkar bar seinast saman.  Hann var stríðinn og rökfastur,  en hlustaði á mótrök og tók rökum – oftast nær.  Það var ekki til í honum snobb. Uppskafning og yfirborðsmennska var eitur í hans beinum, sem og hégómaskapur og látalæti. Hann var hreinskilinn og hreinskiptinn og fór ekki í manngreinarálit.

Lesa meira

Ingibjörg Björnsdóttir, minning

Ég var fjarri fósturjarðarströndum þann 19. ágúst s.l., þegar Ingibjörg Björnsdóttir var kvödd hinstu kveðju. En mér rennur bóðið til skyldunnar að minnast hennar fáeinum vel völdum orðum,  því að hún var eftirminnilegur samstarfsmaður minn þann skamma tíma,  sem ég gegndi embætti fjármálaráðherra (1987-88).

Það var stuttur tími, en við bættum það upp með því að koma gríðarlega miklu í verk. Orðið „skattkerfisbylting“ er ekki fjarri sanni. Seinna, þegar ég lýsti þessari kerfisbreytingu á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda, sagði sænskur starfsbróðir, Kjell-Olov Feldt, að í Svíþjóð hefðu svo umfangsmiklar breytingar í ríkisfjármálum tekið a.m.k. 9 ár.

Lesa meira

Kjartan Jóhannsson, minning

Ísafjörður og Hafnarfjörður – þessi tvö bæjarfélög – skipa sérstakan sess í sögu jafnaðarstefnunnar á Íslandi.

Í báðum þessum bæjarfélögum fóru jafnaðarmenn með meirihlutavald svo til óslitið í aldarfjórðung, lengst af á krepputímum.

Í báðum þessum bæjarfélögum náðist óvenjulegur árangur við að vinna bug á helsta böli kreppuáranna – atvinnuleysinu. Það tókst í krafti samtakamáttar vinnandi fólks og þótti til fyrirmyndar um land allt.

Flestir forystumenn jafnaðarmanna á landsvísu voru fóstraðir í ranni rauðu bæjanna, Hafnarfjarðar og Ísafjarðar. Þeir vísuðu veginn.

Lesa meira

Lára Hafliðadóttir, frá Ögri. Minning

Sögusviðið er við Djúp vestur um miðbik seinustu aldar. Það var voraldarveröld, árla sumars, allt iðandi af lífi. Mínir grönnu unglingsfingur höfðu þénað sem ljósmóðurlíkn við sauðburðinn og fengið hlýlegt kurr og blauta snoppu á vangann í þakklætisskyni.

Við vorum nýkomnir heim í Ögur eftir að hafa legið úti í Ögurhólmum. Andarunganrir voru komnir á stjá, svo að við máttum hirða dúninn úr hreiðrunum, milli þess sem við svolgruðum í okkur úr hráum kríueggjum, hver í kapp við annan. Í staðinn  áttum við yfir höfðum okkar grimmilega hefnd kríunnar, sem er mesti kvenvargur norðurhvelsins.

Lesa meira

Atli Heimir Sveinsson; minning

Við munum það, eins og gerst hafi í gær. Seinasta lag fyrir fréttir. Þulurinn sagði hátíðlegri röddu: Ljóðið er eftir Jóhannes úr Kötlum, en lagið eftir Atla Heimi Sveinsson, tónskáld.

Hann var 15 ára. Þar með var þessi bráðgeri bekkjarbróðir stiginn upp á Olympstind, þar sem fyrir sátu höfuðsnillingar mannsandans. Alla tíð síðan hefur Atli Heimir staðið við fyrirheit æskumannsins. Höfundarverk hans er svo mikið og fjölskrúðugt að furðu sætir. Að baki bjó skapandi hugur og óbilandi viljastyrkur.

Að loknu stúdentsprófi lá leið hans til Þýskalands, landsins sem kennt er við Heine og Hitler, Göthe og Göbbels. Þjóðverjar voru að skríða upp rústum stríðsins, eftir að hafa tapað glórunni í sjálfstortímingaræði nazismans. Atli varð innvígður í tónlistarhefð þýska menningarheimsins, sem stendur engum að baki. En hann var einskis manns hermikráka. Atli var skapandi hugsuður undir aga tónlistarformsins og kenndi til í tilfinningaróti tvíræðrar tilveru, sem einkenndist af ofsa og hraða. En leitaði að lokum hjálpræðis í hinu fagra og friðsæla.

Helförin var Húnunum í fersku minni. Menntaðasta þjóð Evrópu hafði hrokkið af hjörunum og hrasað út í botnlausa villimennsku. Stockhausen, meistari Atla Heimis, skildi samtíma sinn: Öld öfga, ofbeldis og tortímingar. Atli skildi það líka. Og funi og fjör æskumannsins bauð ekki upp á neinar málamiðlanir.

Lesa meira

Björgvin Guðmundsson; Minning

Hann var jafnaðarmaður í húð og hár – ekta sósíaldemókrat – til hinsta dags. Vinnuþjarkur, sem féll aldrei verk úr hendi. Það lýsir manninum vel, að í vikunni, áður en hann kvaddi, var hann að ganga frá seinustu grein sinni með raunsæjum tillögum um, hvernig eigi að rétta hlut aldraðra, svo að velferðarríkið íslenska nái að rísa undir nafni.

Aldursmunurinn á okkur samsvaraði tveimur menntaskólakynslóðum, tæpum átta árum. Þegar ég var enn á mínum marxísku sokkabandsárum að lesa utanskóla við MR, var Björgvin löngu byrjaður að láta til sín taka sem vinnuþjarkur í þjónustu jafnaðarstefnunnar. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu meðfram námi í viðskiptafræði við háskólann, formaður Stúdentaráðs og formaður Sambands ungra jafnaðarmanna í framhaldi af því. Þessi atvæðamiklu ungi maður átti síðar eftir að sitja í flokkstjórn Alþýðuflokksins á fjórða áratug. Alltaf til staðar. Alltaf til þjónustu reiðubúinn.

Lesa meira

Sigurður E Guðmundsson; Minning

„Þú heldur áfram þegar ég er farinn“. Þetta sagði Aldís Pála, kona Sigurðar, við mann sinn skömmu áður en hún lést árið 2007. Hún var að vísa til magnum opus Sigurðar – kórónunnar á ævistarfi hans: „Öryggi þjóðar – frá vöggu til grafar -. Þetta er heitið á stórvirki, um uppruna og sögu velferðarþjónustu á Íslandi frá lokum 19du aldar til loka seinni heimstyrjaldar, sem Sigurður hefur unnið sleitulaust að s.l. áratug, allt til hinsta dags.

Sigurður stóð við þetta áheit konu sinnar. Skömmu eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdarstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, eftir tæplega 30 ára starfsferil þar, bjó hann um sig á Þjóðarbókhlöðunni. Þar sat hann löngum stundum umkringdur stöflum af þingmálum, lagabálkum, skýrslum og greinagerðum um það, hvernig fátækt fólk var smám saman leyst úr fjötrum örbirgðar og öryggisleysis, fyrir tilverknað vaknandi verkalýðshreyfingar og hins pólitíska arms hennar, flokks íslenskra jafnaðarmanna.

Lesa meira