Framundan var utanríkisráðherrafundur Norðurlanda. Á flugvellinum rakst ég á bók með forvitnilegum titli: Norge – een-parti staat. Ég renndi í gegnum þetta í flugvélinni.
Þegar ég kom á skrifstofu Thorvalds í utanríkisráðuneytinu í Osló, fleygði ég bókinni á borðið hjá honum og sagði: „Nú veit ég allt um ykkur“. Thorvald fletti bókinni lauslega, brosti sínu blíðasta og sagði síðan: „Viltu heldur búa við einræði þeirra?“
Við höfðum ekki tíma til að fara ofan í saumana á málinu þá, en svar Thorvalds sat eftir í huga mér. Eftir því sem tíminn líður, verður mér æ oftar hugsað til þessara orðaskipta og veruleikans, sem að baki býr. Enginn véfengir, að vald fjármagnseigenda, atvinnurekenda, stjórnenda stórfyrirtækja – þeirra sem ráða kapitalinu – er mikið. Þeirra er valdið til að ráða og reka.
Það sem Thorvald meinti er þetta: Ef fármagnið nær líka undir sig pólitíska valdinu, verða fjármagnseigendur í reynd einráðir. Þótt þetta gerist í birtingarmynd lýðræðis, er það í reynd einræði. Þarna förum við að nálgast kjarna málsins. Hið sósíaldemókratiska velferðarríki Norðurlanda – norræna módelið – varð til vegna þess, að samtök launafólks – ekki fjármagnseigenda – og hinn pólitíski armur þeirra, jafnaðarmannaflokkarnir, réðu ferðinni. Þeir settu leikreglurnar. Þeir mótuðu skattakerfið. Þeir tryggðu almenningi aðgang að menntun og heilsugæslu, án tillits til efnahags. Þannig efldu þeir frelsi einstaklingsins í verki.
Lesa meira