Þetta kom sér vel, þegar blómvöndurinn barst frá henni frú Hertu Schenk Leósson. Skúringafata getur nefnilega líka þénað sem blómavasi, þegar maður er fátækur og hamingjusamur, þ.e.a.s. nægjusamur. Frú Herta – blessuð sé minning hennar – hafði reyndar prívat og persónulega búið fjölda vestfirskra ungmenna undir súdentspróf í latínu og frönsku og í þýskum kúltúr í kaupbæti. Ég leit á blómvöndinn frá henni sem sýnilegt tákn um velþóknun forsjónarinnar á fyrirtækinu. Ég var svo sem ekki sá fyrsti, sem byrjaði með tvær hendur tómar. Og mér fannst vel við hæfi, að ég byrjaði sem hvort tveggja, kúltúrkommissar og ræstitæknir, við þetta verðandi lærdómssetur, sem á þessum tímapúnkti átti bara eina skúringafötu.
Í tilefni 40 ára afmælis Menntaskólans á Ísafirði: AÐ GJALDA FÓSTURGJÖLDIN
„Ég aftanskinið óttasleginn lít
ef ekki dagsins próf ég staðist get,
að mjakast hafi ennþá út um fet
þess akurlendis jarðar sem ég brýt.”
(Jón Helgason: Að morgni)
1.
Ef mér skjátlast ekki því meir, byrjaði þetta ævintýri fyrir 40 árum með því að kaupa skúringafötu og þvottalög – hvort hét hann ajax eða handyandy? – úti í Björnsbúð. Stebbi stórsmiður, fyrsti starfsmaður MÍ, fyrir utan sjálfan mig, og faðir verðandi stúdenta frá þessum skóla, hafði lagt sig í líma við að breyta gamla barnaskólahúsinu til að búa það undir nýtt hlutverk. Fram að þessu var þetta góða hús sniðið að þörfum smáfólksins. Nú stóð til að hleypa þar inn ögn fyrirferðarmeira fólki. Þess vegna þurfti að sópa upp og skrúbba eftir smiðinn, svo að allt liti þetta þokkalega út, þegar aðgangsharðir umsækjendur um skólavist færu að knýja dyra.