Þrátt fyrir allt þrasið og fjasið stendur sú staðreynd óhagganleg, að Icesave – þetta tilræði við efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar – er runnið undan rifjum íslenskra manna og á ábyrgð Íslendinga, ýmist vegna aðgerða þeirra eða aðgerðaleysis. Íslensk stjórnvöld réðu yfir lagaheimildum og stjórnvaldsúrræðum, sem hefðu dugað til að forða þjóðinni frá Icesave-reikningnum. Þau brugðust. En í stað þess að viðurkenna mistök sín – svo að af þeim megi læra – reyna þau nú, úr stjórnarandstöðu, að skella skuldinni á alla aðra. Þannig reyna þeir, sem bera þyngsta ábyrgð á óförum okkar, að beina athyglinni frá sjálfum sér með því að kenna öðrum um. Rökin fyrir þessum fullyrðingum standa óhögguð, þrátt fyrir allt þrasið. Rökin eru þessi:
SOS!
Það á ekki af okkur að ganga. Fimmtán mánuðir hafa farið í (óbærilegt) argaþras um Icesave. Alþingi hefur verið óstarfhæft í hálft ár út af málþófi stjórnarandstöðunnar. Eftir mörg þúsund ræður og þrasþætti án uppstyttu í ljósvakamiðlum um Icesave, sitjum við enn í sama farinu. Þjóðin er engu nær um lausn málsins, sem lifa má við. Ísland er eins og stjórnlaust rekald, sem hrekst undan veðri og vindum.