SJÁLFSHJÁLPARBÓK HANDA (HUGSANDI) KJÓSENDUM

Hörður Bergmann: Að vera eða sýnast: gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins. 154 bls. Skrudda 2007.

Málflutningsrit eða rökræðubókmenntir eru fásénar í íslenskri bókaflóru. Gagnrýnin hugsun – það að lýsa efasemdum um viðtekna venjuhugsun, virðist varla eiga heima í íslenskri umræðuhefð. Hefðin sú er mestan part ad hominem, þ.e.a.s. við hneigjumst til að hjóla í höfundinn sjálfan fremur en hugmyndir hans. En um hvað snúast umvandanir höfundar þessarar bókar?

Þær snúast um að afhjúpa vanahugsun, sem stenst lítt eða ekki, þegar nánar er að gáð. Hún snýst um að afhjúpa sjónarspilið og sýndarveruleikann, sem valdhafar, hagsmunaaðilar, atkvæðabraskarar og kaupahéðnar búa til, af því að það hentar þeim. Hér er reynt að kryfja heilaspuna og viðburðastjórnun valdhafanna og bera glansmynd þeirra saman við veruleikann, eins og venjulegt fólk kann að upplifa hann. Þetta er þörf hugarleikfimi á kosningaári, þegar kjörbúðaauglýsingar ráðandi flokka hellast yfir okkur, samkvæmt samkomulagi nýgerðu um allt að 28 milljónir pr. flokk (nota bene milljónirnar koma allar úr vösum skattgreiðenda, þannig að þeim er sjálfum ætlað að borga herkostnaðinn).

Lesa meira

NÝJA ÁHÖFN Í SEÐLABANKANN. VIÐTAL JAKOBÍNU DAVÍÐSDÓTTUR VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR TÍMARITIÐ MANNLÍF

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem á annað borð fylgjast eitthvað með stjórnmálaumræðunni hér landi að hvarvetna er rætt um Evrópumál. Þar sem þrír eða fleiri koma saman ber Evrópusambandið á góma og sýnist sitt hverjum.

Eftirfarandi viðtal tók Jakobína Davíðsdóttir, blaðakona og stjórnmálafræðingur, við Jón Baldvin fyrir tímaritið Mannlíf í mars 2007.

Lesa meira

HVER Á ÍSLAND?

Þann 31. mars n.k. mun athygli allra landsmanna beinast að ykkur Hafnfirðingum. Þann dag svarið þið því, hvort ykkur hugnast tillögur bæjarstjórnar um deiliskipulag vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Það er mál, sem varðar framtíð ykkar bæjarfélags, kannski næstu hálfa öldina eða svo. Það er ykkar ákvörðun og ekki annarra.

En um leið og þið kjósið sjálfum ykkur örlög, mun ákvörðun ykkar ráða miklu um framhald þeirrar stóriðjustefnu, sem ríkisstjórn og þingmeirihluti hefur kappsamlega fylgt fram á undanförnum árum. Það varðar þjóðina alla. Ég ætla mér ekki þá dul að blanda mér í ykkar sérmál,. Reyndar get ég með góðri samvisku sagt, að ég hef tröllatrú á pólitískri dómgreind Hafnfirðinga. Hér er hreinn meirihluti jafnaðarmanna við völd. Hafnfirðingar áréttuðu það í seinustu sveitarstjórnarkosningum, að Hafnarfjörður er höfuðvígi jafnaðarstefnunnar á Íslandi.

Lesa meira

HVAÐ ER SVONA RÓTTÆKT VIÐ AÐ VERA VINSTRI-GRÆN(N)?

VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.

“Það er bjargföst sannfæring mín, að samábyrgt velferðarsamfélag í anda þess besta, sem við þekkjum að norrænni fyrirmynd, sé þróaðasta samfélagsskipan, sem enn hefur litið dagsins ljós á jörðinni… Hvergi í heiminum er betra að búa, hvergi er betra að ala upp börn, hvergi er betra að lifa lífinu og hvergi er betra að verða gamall heldur en í norrænu velferðarsamfélögunum.”
(Steingrímur J. Sigfússon: Við öll, bls. 200)<(i>

Ef maður vissi ekki, að ofangreind tilvitnun er úr stefnuskrárriti formanns Vinstri-grænna, gæti maður haldið, að formaður Alþýðuflokksins forðum daga væri að tala. Eða einhver innmúraður og innvígður eðalkrati af Norðurlöndum, sem hljómaði svona í íslenskri þýðingu. Alla vega er þetta sósíaldemókratískt manifesto – lífsskoðun jafnaðarmanns – í hnotskurn. Samt vill Steingrímur alls ekki gangast við því að vera krati. Hann vegsamar þá samfélagsgerð, sem er skilgetið afkvæmi sósíaldemókratískrar hugmyndafræði og hundrað ára baráttu jafnaðarmannaflokka og verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum. En samt vill hann ekki vera við þá kenndur.

VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.

Hvers vegna ekki? Hann vill láta kalla sig róttækan jafnaðarmann. En hvað er svona voðalega róttækt við Steingrím Jóhann? Að vera á móti NATO og her í landi, eftir að herinn er farinn? Er það ekki bara svona dejá vu upp á frönsku – búið mál? En að yfirbjóða búverndarstefnu Framsóknar, sem Halldór Laxness kenndi einu sinni við “Hernaðinn gegn landinu” – búverndarstefnu, sem í alþjóðlegu samhengi heldur helmingi jarðarbúa í heljargreipum örbirgðar – hvað er svona róttækt við það?

Lesa meira

ÁRSHÁTÍÐ FRAMTÍÐARINNAR, 14. FEB. 2007: FÍLABEINSTURN EÐA FRAMLEGÐARFORRIT?

Ég var mættur í fyrsta tíma í sögu iðnbyltingarinnar í hagfræðideild Edinborgarháskóla ásamt með öðrum stúdentum víðs vegar að úr heiminum. Kennarinn var grallaralegur sláni frá Írlandi, margvís og meinhæðinn. Hann spurði þá sem þarna voru saman komnir, hvort þeir hefðu lært einhverja sögu áður.

1.
Innfæddir höfðu sumir lært sögu Breska heimsveldisins. Einhverjir sunnan landamæranna úr klassiskum enskum skólum höfðu lært um Hellas og Róm. Strákur frá Jamaíku hafði lesið sögu konkvistadoranna, þ.e. sögu spænskrar nýlendukúgunar í Suður Ameríku. Útlægur Armeni hafði lært sögu Ottomanheimsveldisins fram að falli þess með Ataturk.
Smám saman kom á daginn, að menn höfðu numið sagnfræðilegan bútasaum héðan og þaðan og frá ýmsum tímum. Þegar röðin kom að Íslendingnum, var enskan mér þá ekki tamari á tungu en svo, að ég þýddi orðrétt af hinu ástkæra ylhýra: “ I have studied Icelandic History and the General History of Mankind”. Við þessi orð tók Írinn bakföll af hlátri. Hann spratt upp úr sæti sínu fyrir enda borðsins, hneigði sig djúpt fyrir mér og gaf mér til kynna með stórkarlalegri sveiflu að setjast í sætið hans og taka við – um leið og hann sagði: “Loksins, loksins, þér eruð maðurinn, sem við höfum öll verið að bíða eftir”.

Lesa meira

HROKI OG HEIGULSHÁTTUR

Það mun vera leitun á byggðu bóli á Íslandi, þar sem mannanna verk eru jáfnólundarlega upp á kant við sköpunarverk náttúrunnar og Mosfellsbær. Það þarf ekki að príla hátt í hlíðar Helgafells til að skynja búsæld Reykja- og Mosfellsdals. Þar hefur verið víða gott undir bú. Varmá og Leirvogsá liðast um blómlegt undirlendið. Útsýnið er fagurt og fjallasýn háleit. Við erum hérna á fornum söguslóðum.

Í samanburði við þetta sköpunarverk náttúrunnuar verður að játa, í nafni sannleikans, að mönnunum hafa verið mislagðar hendur við að reisa sín mannvirki í sátt við umhverfið. Þjóðvegurinn – Vesturlandsvegur – klýfur byggðalagið í tvennt. Út um bílrúðuna blasir við vegfaranda kjarni vaxandi bæjarfélags: Kentucky Fried Chicken, Esso-bensínstöð (með samráði) og amrísk vídeóspóluleiga. Hraklegra getur það varla verið. Þetta er eins og sýnishorn um sjónmengun. Hvaða mannvitsbrekkur voru það, sem hugkvæmdist að hrinda hugmyndum sínum um mannlegt samfélag í framkvæmd með þessum hætti? Amrísk bílaborg þar sem þú fyllir tankinn og hámar í þig ruslfæðið inn um bílgluggann og pikkar upp innantóma afþreyingarspólu um leið og þú forðar þér burt af staðnum. Er þetta ekki síðbúin hrollvekja um Mr. Skallagrímsson in the deep south?

Lesa meira

UM TJÁNINGARFRELSI Í RÉTTARRÍKI”SÁ YÐAR SEM SYNDLAUS ER……..”

Þann 18. október 2006 krafðist Jón Magnússon, hrl. þess, f.h. niðja Sigurjóns Sigurðssonar, f.v. lögreglustjóra, að ákæruvaldið höfðaði opinbert mál gegn Jóni Baldvini fyrir að hafa í sjónvarpsviðtali kallað Sigurjón Sigurðsson “lögreglustjórann alræmda”. Viðtalið var í tengslum við umfjöllun um leynilegar hleranir á símum ráðamanna á öldinni sem leið.
Með bréfi þann 1. mars s.l. vísaði ríkissaksóknari umræddri kröfu frá og vitnaði um rökstuðning til málsvarnarskjals Jón Baldvins. Þar sem málið varðar grundvallarsjónarmið um tjáningarfrelsi í réttarríki, á málsvarnarskjalið erindi við þá, sem láta sig tjáningarfrelsi varða.

1.

Ég vísa því á bug, að ég hafi gert mig sekan um ærumeiðandi ummæli um látinn föður kærenda, Sigurjón Sigurðsson, fv. lögreglustjóra.

Lesa meira

SALKA VALKA Í SAMFYLKINGUNNITELPAN FRÁ STOKKSEYRI

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: Stelpan frá Stokkseyri –
Saga Margrétar Frímannsdóttur, 367 bls..
Bókaútgáfan Hólar, 2006

Þetta er sagan um Sölku Völku í sjávarplássinu, sem settist inn á þing. Sjávarplássið er Stokkseyri, og þessi Salka heitir reyndar Margrét Frímannsdóttir. Mamma hennar var einstæð móðir. Hún hafði smitast af berklum og gat því ekki á þeim tíma annast um dóttur sína og séð þeim báðum farborða. Stúlkan ólst því upp hjá fósturforeldrum sínum á Stokkseyri. Þrátt fyrir lítil efni er bjart yfir bernskuárum í sjávarplássinu. Að íslenskum sið ganga börnin þar að mestu sjálfala. Þau búa við frelsi, en verða snemma að taka þátt í lífsbaráttu hinna fullorðnu. Það er að lokum sá agi, sem kemur að utan.

Hún nýtur takmarkaðrar skólagöngu. Lýkur þó skyldunni og gott betur. Hún giftist snemma sjóara úr plássinu, sextán ára gömul, og byrjar að búa. Hún er lítt skólagengin, tveggja barna móðir og vinnur í fiski. Þetta gæti svo sem verið sagan öll. En hún er fórnfús og hjálpsöm og vill leggja öðrum lið, enda alin upp í þeim anda. Hún virðist hafa veikst af hinni pólitísku veiru, nánast frá blautu barnsbeini, enda Björgvin frændi formaður verkalýðsfélagsins á staðnum í marga áratugi. Hún hefur sterka réttlætiskennd. Það þýðir að vera til vinstri. Á Stokkseyri þýddi það á þessum tíma að vera í Alþýðubandalaginu.

Lesa meira

VITJUNARTÍMI

Kosningaúrslitin 1978 – fyrir tæpum 30 árum – voru eins og pólitískur jarðskjálfti, a.m.k. 7.5 á Richter. Það skalf allt og nötraði. Hefðbundin helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisframsóknarflokksins var við völd, þá sem nú. Stjórnmálaforystan í landinu bar sýnileg þreytumerki, eftir að hafa hjakkaði í sama farinu árum saman, án árangurs. Undir niðri kraumaði óánægja, sem braust upp á yfirborðið í kosningunum. Tvíflokkur helmingaskiptanna galt afhroð. A-flokkana vantaði aðeins þrjá þingmenn í starfhæfan meirihluta. Það þótti næstumþví bylting. Kosningaúrslitin voru krafa um breytingar. En skilaboð nýrrar kynslóðar komust ekki til skila. Stjórnmálaforystan var ekki vandanum vaxin. Sjáandi sá hún ekki og heyrandi heyrði hún ekki. Þess vegna fór sem fór. Tómt klúður.

Ung kynslóð og óþreyjufull var að hasla sér völl í aðdraganda þessara kosninga. Þar fór fremstur í flokki Vilmundur Gylfason. Hann hafði allt aðra sýn á þjóðfélagið en þeir kerfiskallar, sem sátu á fleti fyrir og vörðu sérhagsmuni hins pólitíska samtryggingarkerfis af gömlum vana. Þeir skildu varla, hvað var á seyði. Ef krafan var ekki um frjálsar ástir, þá var hún a.m.k. um opin prófkjör, frjálsa fjölmiðla, beint kjör forsætisráðherra, vinnustaðasamninga um kaup og kjör, frjálsan opnunartíma verslana (og svokallaðra skemmtistaða) og sitt hvað fleira. Þetta hljómaði róttækt og þar af leiðandi hættulegt. En kerfið varð klumsa. Það stóð þetta áhlaup af sér. “Arkitekt kosningasigursins” var settur utan garðs. Og lífið hélt sinn vanagang.

Lesa meira