MAÐUR AÐ MEIRI

Morgunblaðið skýrir lesendum sínum frá því á forsíðu 22. okt. s.l. í heimsfréttarstað, að sá grunur hafi “læðst að” formanni Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, að óprúttnir aðilar reyni að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn almennt og sér í lagi vin hans og vopnabróður, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, vegna prófkjörs flokksins nú um helgina.Samkvæmt fréttinni varaði formaðurinn söfnuð sinn við þessum óprúttnu aðilum og skoraði á Sjálfstæðismenn að slá skjaldborg um hinn höfuðsetna dómsmálaráðherra. Var helst á formanninum að skilja, að ekki mundi af veita, enda þess skemmst að minnast, að dómsmálaráherrann reið ekki feitu hrossi frá atlögu sinni að Reykjavíkurlistanum og Ingibjörgu Sólrúnu, borgarstjóra um árið, þrátt fyrir dyggilegan stuðning þáverandi formanns.

En hverjir eru þessir “óprúttnu aðilar”? Sem betur fer þarf ekki lengi að leita þeirra, því að þeir hafa ekki séð ástæðu til að fara huldu höfði. Þeir eru Þór Whitehead, sagnfræðingur, Andri Óttarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS). Það verður að segja þessum mönnum til hróss, að þeir sigla ekki undir fölsku flaggi og vega ekki úr launsátri, eins og hlerunarsérfræðingar leyniþjónustunnar vega að fórnalömbum sínum. Óhróðursmenn koma sjáldan fram undir fullu nafni, eins og þeir vita manna best í Valhöll.

Lesa meira

ATHAFNASKÁLD Á ALÞINGI

Frægasti konsertpíanisti Pólverja á fyrri hluta seinustu aldar hét Paderevski. Þegar pólska ríkið var endurreist við lok fyrra stríðs, vildu Pólverjar virkja frægðarljóma tónsnillingsins sér til framdráttar, og gerðu hann að fyrsta forseta hins endurreista ríkis. Sem slíkur mætti Paderevski f.h. Pólverja á friðarráðstefnuna í Versölum til fundar við aðra þjóðaleiðtoga. Þegar hann var kynntur fyrir Clemenceau, forsætisráðherra Frakka, heilsaði forsætisráðherrann honum virðulega, en sagði síðan með votti af franskri kaldhæðni: “Aha, tónlistarsnillingur orðinn að pólitíkus – er þetta ekki mikil lækkun í tign?”

Víst er það, að tónlistin er æðst allra listgreina. Hún er eina tungumálið, sem mannkynið á sameiginlegt þvert á þjóðerni og landamæri. Í samanburði við tónlistina er pólitíkin – list hins (ó)mögulega – lítillát aukabúgrein. Samt hefur tónlistin á stundum blómstrað í skjóli upplýstra stjórnvalda. Hið eiginlega stórveldistímabil Þýskalands er kennt við Bach og Beethoven fremur en við Bismark.

Lesa meira

VIÐ BROTTFÖR HERSINS: SJÁLFSTÆÐ UTANRÍKISSTEFNA?

Brottför bandaríska hersins af íslandi þann 30. sept. s.l. markar tímamót í Íslandssögunni. Vera hersins á Íslandi klauf þjóðina þegar í tvær andstæðar fylkingar. Samkomulag núverandi ríkisstjórnar við Bandaríkjastjórn um það sem við tekur er, að mati greinarhöfundar, ekki frambúðarlausn. Samkomulagið vekur í reynd fleiri spurningar en það svarar um öryggismál þjóðarinnar í framtíðinni.

Brottför hersins markar þáttaskil. Við erum nú að byrja nýjan kafla í Islandssögunni. Íslendingar þurfa að taka öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í framtíðinni til gegngerrar endurskoðunar. Ytri aðstæður og viðhorf í heimsmálum eru nú öll önnur en var, þegar núverandi fyrirkomulag var mótað. Nú þurfum við sameiginlega að leita svara við þeirri spurningu, hvar Íslendigar eigi heima í fjölskyldu þjóðanna í framtíðinni að loknu köldu stríði andstæðra hugmyndakerfa. Þau Bandaríki,sem nú bjóða heiminum birginn, eru öll önnur en þau, sem voru “vopnabúr lýðræðisins” á árum seinni heimsstyrjaldar. Samrunaferlið í Evrópu hefur gerbreytt heimsmyndinni í okkar heimshluta. Í ljósi þessara og annarra breytinga í umhverfi okkar, þurfum við nú að hugsa ráð okkar upp á nýtt. Þeirri umræðu verður ekki slegið á frest. Þessi grein, og önnur í framhaldinu, eru framlag höfundar til til þeirrar umræðu.

Lesa meira

BROTTFÖR HERSINS: ÍSLAND OG BANDARÍKIN, EIGUM VIÐ SAMLEIÐ?:

Þann 15. mars s.l. tilkynntu bandarísk stjórnvöld einhliða þá ákvörðun sína að binda endi á veru varnarliðsins hér á landi eftir um sex áratuga nær óslitna dvöl í landinu. Eftir sátu þáv. forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, vígsnautarnir úr Írakstríðinu furðu lostnir og vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Þeir höfðu reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að samningaviðræður væru í gangi, á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Allt í einu stóðu þessir menn uppi eins og glópar frammi fyrir orðnum hlut. Þeir höfðu gert sig seka um rangt stöðumat, óleyfilega trúgirni og dómgreindarbrest.

Einhliða ákvarðanir Bandaríkjastjórnar.

Hið ranga stöðumat fólst í því að loka augunum fyrir því að ákvörðunin var fyrir löngu tekin í Pentagon um heimkvaðningu varnarliðsins. Trúgirnin birtist í því að þessir menn héldu, að þeir væru teknir alvarlega í samningaviðræðum. Svo reyndist ekki vera. Dómgreindarbrestur má það heita að beita hótunum – um uppsögn varnarsamningsins – en standa svo ekki við það, þegar á reyndi. Hótunin reyndist marklaus. Núverandi forsætisráðherra bætti ekki úr skák þegar hann lýsti því yfir, að í varnarmálum ættu Íslendingar “ekki annarra kosta völ” en að leita á náðir Bandaríkjamanna. Það var ekkert “plan-B,” frekar en í Írak. Þar með eyðilagði hann samningsstöðu sína.

Lesa meira

SMALL NATIONS IN THE ERA OF GLOBALIZATION HOW ARE THEY DOING?

What is the status of small nations in the era of globalization? How are they doing? What are their prospects? Are they doing better or worse than the so called major states? Are they doing better or worse than they did in the 20th C; in the bi-polar world of the cold war or in the inter- war period, under the shadow of the totalitarian menace of military conquest?
As a former Minister for Foreign Affairs and an ambassador of a small state, Iceland, I wish to use this opportunity to share with you my thoughts on this subject. As citizens of a small state, celebrating the 15th anniversary of your restored independence, this is hopefully a matter of mutual interest.

1.
As a matter of fact I have recently started a new career as a visiting scholar at two universities in Iceland where one of my courses has to do with the question of the capacity of small states to take care of their vital interests, such as security and business interests, in the international system.

Continue reading

ÚR FELUM

Geimvera, sem fengi það óöfundsverða hlutverk að fylgjast með borgarstjórnarkosningum í Reykjavík vorið 2006 og að senda skýrslu til geimkynnis síns, mundi trúlega eiga bágt með að fatta fídusinn í sjónarspilinu. Geimveran mundi álykta sem svo, að ritstjóri Morgunblaðsins væri fylgismaður Fidels Castro í heilögu stríði gegn fákeppnisklíku auðvaldsins. Og að nánustu bandamenn hans væri að finna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, undir forystu velviljaðs öldungs að nafni Vilhjálmur. Geimveran sæi í hendi sér, að þessi góði flokkur mætti ekkert aumt sjá og æli einkum önn fyrir börnum, konum, öldruðum og öryrkjum. Þetta bágstadda fólk ætti hins vegar undir högg að sækja hjá atvinnumiðlun Framsóknarflokksins ehf. , sem hefði lagt undir sig Heilbrigðisráðuneytið til þess að herja þaðan á varnarlaust fólk. Áróðursbæklingar Sjálfstæðisflokksins, leiknar sjónvarpsauglýsingar og annað kruðerí, litverpt úr bláu í bleikt, mundi styrkja geimveruna í þessum söguskilningi.

Höfundur velferðarríkisins.

Allar efasemdir hefðu svo horfið úr huga geimverunnar við að heyra Kjartan Gunnarsson, fjárfesti, (sem stýrði Sjálfstæðisflokknum og Landsbankanum um skeið í aukavinnu) upplýsa almenning um það í útvarpsþætti í vikulokin, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fundið upp velferðarríkið.

Lesa meira

HVERJIR ERU ÞESSIR ÍSLENDINGAR?

Hverjir eru þessir Íslendingar, og hvaðan koma þeir? Íslendingar geta státað af því, umfram flestar aðrar þjóðir, að eiga skráðar heimildir um fund landsins og landnám á 9du og 10du öld. Þetta gerist á útþensluskeiði norrænna manna, sem við köllum Víkingaöld, u.þ.b. 800-1190, ef fall Dyflinar sem víkingavirkis árið 1190 er talið tákna lok þess tímabils. Á Víkingaöld leituðu norrænir menn út frá meginlandi Skandínavíu austur og vestur og jafnvel suður á bóginn inn í veröld Miðjarðarhafsins. Sókn þeirra yfir Atlantshafið í áföngum með fundi og landnámi Færeyja, Íslands, Grænlands og loks meginlands Norður-Ameríku um árið 1000, var afrek, sem færði út landamæri hins þekkta heims þeirrar tíðar, hálfu árþúsundi á undan Kólumbusi. Ógrynni heimilda hafa varðveist, þ.á.m. í Íslendingasögum, um samskipti norrænna manna, misjafnlega friðsamleg, og hinna ýmsu ættbálka handan Eystrasalts, sem nú byggja þau lönd, sem við köllum Finnland, Eistland, Lettland og Litháen og inn í Rússland og Úkraínu. Lívónía, Kúrland og Kænugarður eru kunnuglegt sögusvið í Íslendingasögum.

Víkingar sóttu í vesturveg til skosku eyjanna, inn í Skotland og Írland og til Englands og stofnuðu reyndar víkingaríki í Normandí í Frakklandi. Vilhjálmur hinn sigursæli, sem seinustum manna heppnaðist innrás í England árið 1066, var beinn afkomandi Göngu-Hrólfs, stofnanda víkingaríkisins í Normandí. Tæknikunnátta við skipasmíði, sjómennskureynsla og siglingakunnátta tryggði víkingum yfirburði umfram aðra á þeim tíma. Það voru þessir tæknilegu yfirburðir, sem gerðu víkingum kleift að stunda úthafssiglingar á Atlantshafi og brúa þannig bilið milli Evrópu og Ameríku í fyrsta sinn, svo vitað sé.

Lesa meira

ALÞÝÐUFLOKKURINN 90 ÁRA

Nú þekkist sú skoðun og þykir fín, að þær þjóðir einar, sem gefa fjármagnseigendum lausan tauminn,geti spjarað síg í hinu hnattræna hagvaxtarkapphlaupi. Það megi ekki íþyngja þeim um of með afskiptasemi og sköttum, því að þeir kunni að fyrtast við og fara. Þar með væri hagvöxturinn í hættu og um leið atvinna og afkoma almennings. Þeim þjóðum gangi hins vegar allt í haginn, sem dansa eftir töfraflautu fjármagnsins, lækka skatta, einkavæða ríkisfyrirtæki og þjónustu og láta af óþarfa afskiptasemi og eftirliti.
Það fylgir sögunni, að það sé engra annarra kosta völ. “Take it or leave it”, eins og þeir segja á máli villta vestursins.

1.
Þannig hljóðar í stuttu máli erkibiskupsboðskapur nýfrjáls-hyggjunnar, sem stundum er kenndur við höfuðstöðvar hennar og kallast þá “Washington – vizkan”. Boðskapurinn er einatt settur fram, eins og hann væri óumdeild niðurstaða vísindalegra rannsókna. Samt er hann boðaður af ákefð heittrúarmannsins. Þetta trúboð hefur tröllriðið heimsbyggðinni s.l. tvo áratugi. Hinum trúuðu er heitið sæluvist þegar í þessu lífi, en efasemdarmönnum er hótað hörðu í hagvaxtarlausum heimi.

Lesa meira

ÚKRAÍNA

Ukraína er á krossgötum. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um pólitískan vilja þeirra til að Ukraína skipi sér í raðir evrópskra lýðræðisríkja (með aðild að EU og NATO) eru engar raunhæfar líkur á að það gerist í bráð. Þrettán ár eru liðin frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði 1991. Árangurinn er í besta falli ójafn, í versta falli hörmulegur. Um margt svipar þróuninni meira til Rússlands en til Mið- og Austurevrópuríkja eða til Eystrasaltsríkjanna. Ukraína nær ekki framhaldseinkunn á neinn þeirra mælikvarða, sem Evrópusambandið og NATO setja að skilyrði fyrir inngöngu. En þeir eru: Fjölflokkalýðræði með frjálsum kosningum og frjálsum fjölmiðlum; réttarríki með sjálfstæðum dómstólum, opið hagkerfi þar sem ríkir markaðssamkeppni skv. viðurkenndum leikreglum. Ekkert af þessu hefur náð að dafna í Ukraínu, og á sumum sviðum er um að ræða afturför frá umbótatímabilinu í upphafi 1991.

Lýst eftir stefnu

Við þessar kringumstæður er alvarleg hætta á, að Evrópusambandið og Bandaríkin gefi Ukraínu upp á bátinn sem vonlaust tilfelli. Bandaríkjamenn sýndu Ukraínu að vísu mikinn áhuga á árunum 1991-2 til 1996, meðan þeir voru að ná samningum um aftengingu vetnisvopnabúrs Ukraínumanna eða um framsal þess til Rússa.

Lesa meira

UM SAMKEPPNISHÆFNI ÞJÓÐA

Aðgát skal höfð í nærveru fjármagns. Þetta er kjarninn í kennisetningum frjálshyggjunnar. Við verðum að hlú að fjármagninu. Annars gæti það fyrtst og flúið þangað, sem betur er að því búið. Eftir sæti þá hnipin þjóð í vanda. Hagvöxtur mundi daprast, störfum fækka, atvinnuleysi héldi innreið sína.

Samkvæmt fagnaðarerindinu skal markaðurinn ríkja frjáls. Þá mun allt annað veitast yður: Hagvöxtur, erlendar fjárfestingar, nýsköpun og auðsköpun. Að vísu mun auðurinn safnast á fáar hendur. En hafið ekki áhyggjur: Molarnir munu um síðir hrjóta af borðum hinna ríku. Hafið því biðlund. Alla vega er engra annarra kosta völ: Velferðarríkið, með sín miklu ríkisafskipti og háu skatta, er dauðadæmt.

Lesa meira