Brottför hersins markar þáttaskil. Við erum nú að byrja nýjan kafla í Islandssögunni. Íslendingar þurfa að taka öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í framtíðinni til gegngerrar endurskoðunar. Ytri aðstæður og viðhorf í heimsmálum eru nú öll önnur en var, þegar núverandi fyrirkomulag var mótað. Nú þurfum við sameiginlega að leita svara við þeirri spurningu, hvar Íslendigar eigi heima í fjölskyldu þjóðanna í framtíðinni að loknu köldu stríði andstæðra hugmyndakerfa. Þau Bandaríki,sem nú bjóða heiminum birginn, eru öll önnur en þau, sem voru “vopnabúr lýðræðisins” á árum seinni heimsstyrjaldar. Samrunaferlið í Evrópu hefur gerbreytt heimsmyndinni í okkar heimshluta. Í ljósi þessara og annarra breytinga í umhverfi okkar, þurfum við nú að hugsa ráð okkar upp á nýtt. Þeirri umræðu verður ekki slegið á frest. Þessi grein, og önnur í framhaldinu, eru framlag höfundar til til þeirrar umræðu.
VIÐ BROTTFÖR HERSINS: SJÁLFSTÆÐ UTANRÍKISSTEFNA?
Brottför bandaríska hersins af íslandi þann 30. sept. s.l. markar tímamót í Íslandssögunni. Vera hersins á Íslandi klauf þjóðina þegar í tvær andstæðar fylkingar. Samkomulag núverandi ríkisstjórnar við Bandaríkjastjórn um það sem við tekur er, að mati greinarhöfundar, ekki frambúðarlausn. Samkomulagið vekur í reynd fleiri spurningar en það svarar um öryggismál þjóðarinnar í framtíðinni.