Menn hafa það enn í dag fyrir satt, að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi verið tekin af í beinni útsendingu á Stöð-2 eftir kvöldfréttir þann 16. september, 1988. Þetta er að vísu of mælt. Ríkisstjórnin hafði naumast greinst með lífsmarki allt sumarið. Talsamband formanna samstarfsflokkanna var slitrótt. Ákvarðanir fengust ekki teknar. Þjóðarskútan var á reki. Það vantaði kúrsinn.
Það var við þessar tvísýnu aðstæður, að við Steingrímur Hermannsson sórumst í pólitískt fóstbræðralag.Við náðum, ásamt samstarfsmönnum okkar, samstöðu um úrræði, sem dugðu við bráðavanda þess tíma.Svo settum við kúrsinn um, hvert skyldi halda. Niðurstaðan varð myndun vinstristjórnar, undir forystu Steingríms, sem var við völd til loka kjörtímabilsins vorið 1991. Þetta kom mörgum í opna skjöldu. Það hafði verið fátt með frændum, jafnaðar- og samvinnumönnum, um hríð. En aðsteðjandi vandi neyddi okkur Steingrím til að slíðra sverðin og snúa bökum saman, svo sem gert höfðu feður okkar, Hermann og Hannibal, forðum daga.
Lesa meira