Allsnægtaþjóðfélagið (“The Affluent Society”) eftir John Kenneth Galbraith kom út árið 1958. Þar með hafði kvatt sér hljóðs maður, sem átti eftir að hafa mótandi áhrif á skoðanir margra af minni kynslóð um margt af því, sem mestu máli skipti í samtímanum. Galbraith var skarpskyggn hagfræðingur, heillandi rithöfundur og vel innrættur jafnaðarmaður – allt í sömu persónunni. Hann var sérfræðingur í að afhjúpa innistæðuleysi venjuviskunnar –“ the conventional wisdom” – en það er hugtak, sem hann átti höfundarréttinn að. Hann lést 29. apríl s.l., 97 ára að aldri. Með honum er horfinn af sjónarsviðinu einn áhrifaríkasti fulltrúi hinnar frjálslyndu Ameríku, sem afgangurinn af heiminum batt vonir við. Þess vegna er vert að minnast hans með nokkrum vel völdum orðum.
Allsnægtir og örbirgð.
Áhrifamesta bók hans, Allsnægtaþjóðfélagið, kom út árið sem ég lauk stúdentsprófi, en ég komst fyrst í tæri við hana nokkrum árum seinna, á námsárunum í Edinborg. Þessi bók opnaði heilli kynslóð nýja sýn á grundvallarþversögn amerísks kapitalisma. Þessi þversögn birtist okkur í einkaveröld allsnægtanna mitt í niðurníðslu almannaþjónustu. Hann festi þessa þjóðfélagsmynd í hugskoti lesenda sinna með orðtakinu: “Private affluence amid public squalor”. Þessi mynd er ekki síður raunsönn lýsing á amerísku þjóðfélagi í dag en hún var fyrir hálfri öld. Víggirt villuhverfi, lúxusbílar og óhófsneysla en vanræktar almannasamgöngur, niðurnídd fátækrahverfi, engar almannatryggingar, opinbert skólakerfi og heilsugæsla að hruni komið. Fimmtungur barnafjölskyldna undir fátæktarmörkum og lífsgæði undirstéttarinnar, sem minna meira á þriðja heiminn en ríkasta þjóðfélag heims. Þetta hefur ekki breyst til hins betra frá því að Galbraith afhjúpaði sannleikann um ójöfnuð og stéttaskiptingu bandarísks samfélags. Þvert á móti. Það hefur versnað um allan helming. Draumurinn um land tækifæranna hefur snúist upp í andhverfu sína. Bandaríkin eru nú mesta ójafnaðarþjóðfélag meðal þróaðra þjóða í heiminum.
Lesa meira