NÆSTA AFSÖKUNARBEIÐNI?

Skörp greining Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings, í Fréttablaðinu (11.03.) á tveimur framtíðarkostum þjóðarinnar ætti að vekja fólk til umhugsunar. Annars vegar óbreytt ástand með krónuna í farteskinu og meðfylgjandi gengisfellingar, afkomusveiflur, ofurvexti og reglubundnar neyðarráðstafanir þegar allt er komið í hönk. Hins vegar aðild að Evrópusambandinu og evrusvæðinu með traustan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, tiltölulega stöðugt verðlag og rekstrarskilyrði atvinnuvega sem skapa rými fyrir erlendar fjárfestingar, nýsköpun og þar með samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum.

Valið sýnist við fyrstu sýn vera tiltölulega auðvelt. Hvernig má það vera að það getur vafist fyrir forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að gera upp hug sinn til þessa stærsta verkefnis samtímans hátt á annan áratug? Það er ekkert launungarmál að forystumenn íslensks atvinnulífs hafa hingað til talið sig eiga pólitískt athvarf í Sjálfstæðisflokknum. Hvernig má það vera að hin pólitíska forysta flokksins er svo veruleikafirrt, að hún skilur ekki lengur brýnustu þarfir atvinnulífsins? Eru þessir menn virkilega ófærir um að setja sig í spor þeirra manna, sem þurfa að reka fyrirtæki með hagnaði og ráða fólk í vinnu og borga því laun?

Lesa meira

ÓJAFNAÐARFÉLAGIÐ

Árið 1997 fengu tveir amerískir nýfrjálshyggjupostular, Scholes, og Merton, Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Það var í viðurkenningarskyni fyrir að hafa leyst “umboðsmannsvandann.” Þeir fundu ráð til að draga úr þeirri áhættu hlutafjáreigenda sem í því felst að fela forstjórum – eins konar embættismönnum – ávöxtun fjármuna sinna.

Fídusinn var í því fólginn að árangurstengja umbun forstjóranna. Forstjóranum bar samkvæmt kenningunni að stjórna með eitt að markmiði: Að viðhalda og hækka verðgildi hlutabréfa. Til þess að halda forstjórunum við efnið þótti rétt að beintengja umbun þeirra við hlutabréfavísitöluna í kauphöllinni.

Lesa meira

PÓLITÍSK VORHREINGERNING

Það er ástæða til að óska verslunarfólki í Reykjavík og nýkjörnum formanni VR, Kristni Erni Jóhannessyni, til hamingju með hreingerninguna í félaginu. Ef þetta var vorhreingerning, þá var hún af illri nauðsyn snemma á ferðinni.

Fyrirfram gerðu fæstir sér vonir um að það tækist að velta Kaupþingsklíkunni úr stjórn félagsins. Kosningareglur félagsins eru flóknar og verulega letjandi fyrir virka stjórnarandstöðu. Almennt má segja að lýðræðið innan hinna fjölmennu stéttarfélaga sé þungt í vöfum. Fæst þessara félaga standa undir nafni sem lifandi félagsmálahreyfing, þar sem grasrótin lætur til sín taka. Í staðinn eru komnir fyrirgreiðslukontórar og sjóðvarsla. Það vekur því vonir um veglegra hlutverk fyrir verkalýðshreyfinguna í viðreisnaraðgerðumn eftir hrun, að uppreisnarhreyfing almennra félagsmanna í VR skyldi hafa tekist.

VR á sér sérstaka sögu. Í upphafi var þetta félagsskapur þar sem kaupmenn (atvinnurekendur) og starfsfólk þeirra (launþegar) störfuðu saman.

Lesa meira

SKULDAVANDI HEIMILANNA: LEITIN AÐ LAUSNUM

Það eru 80 þús. heimili í landinu. Eftir gengishrunið og verðbólguskotið í framhaldinu er svo komið að um fjórtán þúsund heimili eiga ekki eignir fyrir skuldum (18%). Fimmtungur heimilanna í landinu – um 16 þús. heimili – til viðbótar nálgast hratt að lenda í þessari stöðu. Það er því hvorki meira né minna en um 30.000 heimili sem eru á hættusvæði og þurfa á hjálp að halda.

Þessar upplýsingar komu fram í gær (10.03.) á reglulegum blaðamannafundi forsætis- og fjármálaráðherra. Upplýsingarnar eru fengnar úr gagnagrunni um fjármál heimilanna, sem Seðlabankinn hefur dregið saman með heimild persónuverndar. Í gagnagrunninum koma fram sundurliðaðar upplýsingar um tekjur og gjöld, eignir og skuldir, greiðslubyrði lána, vanskil o. fl. Tilvist þessa gagnagrunns auðveldar ákvarðanatöku um varnaraðgerðir varðandi fjárhagsvanda heimilanna í landinu.

Lesa meira

JÁ, EN HVAÐ MEÐ VERÐTRYGGINGUNA?

Það er engin eftirspurnarþensla í hagkerfinu til að kynda undir verðbólgu. Þvert á móti. Framundan er samdráttur og jafnvel verðhjöðnun. Þes vegna er furðulegt að Seðlabankinn (eða IMF/AGS) skuli halda uppi 18% stýrivöxtum. Til hvers? Til þess að stöðva fjárflótta úr landi, segja þeir. Þess þarf ekki þar sem við búum við gjaldeyrishöft. Það er bannað að flytja fé úr landi nema með leyfi. Hves vegna er þá verið að halda uppi 18% vöxtum? Til þess að draga úr verðbólgu segja þeir. En það er engin verðbólga – það er verðhjöðnun framundan.

Þetta gengur m.ö.o. ekki. Bankakerfið er í lamasessi. Vextir eru allt of háir. Eigið fé fyrirtækjanna er á þrotum, enda sogast það með ofurvöxtunum inn í bankana. Hvers konar atvinnustefna er þetta? Um tíu fyrirtæki verða gjaldþrota á dag og tala atvinnuleysingja er komin yfir 16.000. Alls staðar í löndunum í kring um okkar er verið að lækka vexti. Stýrivextir Bank of England eru að nálgast núllið. Efnahagsvandinn núna er ekki að draga úr þenslu heldur að koma í veg fyrir samdrátt. Það þarf að lækka vexti og moka peningum í fyrirtækin til þess að halda uppi framleiðslu og atvinnu.

Lesa meira

“ÓÐUR TIL ÚTLAGANS”

Hvað á að gera þegar maður snýr að lokum aftur heim að nálgast fertugt, staurblankur, atvinnulaus og fráskilinn, án þess að hafa fengið nokkuð sem heitið getur gefið út og manns nánustu ýmist elliærir eða dauðir? Maður byrjar að skrifa. Og smám saman finnur maður aftur sjálfan sig og fer að yrkja ljóð og mála myndir í tungumálið af þessum gömlu íslensku innflytjendum, frændum og frænkum, sem mann fram af manni geymdu heimalandið í hjartastað, þótt örlögin hefðu sent þau forsendingu í þetta framandlega pláss ái sléttunni í miðpunkti Ameríku þar sem er jafnlangt en svo óralangt til beggja stranda.

Svona byrjaði rithöfundarferill Bills Holm sem var mestur rithöfundur íslenskur á enska tungu um okkar daga. Bill var ljóðskaldið sem skrifaði svo magnaðan prósa að hann vakti hina dauðu til lífsins. Mannlífslýsingar dregnar fáum sterkum dráttum vekja til lífsins persónur sem gætu borið uppi nýjar Íslendingasögur. Sagan af konunni sem ól önn fyrir öllum hinum í þorpinu, hjúkraði hinum sjúku, annaðist hina öldruðu í einsemd þeirra og fóstraði ungviðið, sagan sú er af þessu taginu. Þegar hún svo féll frá eftir fórnfúst starf og langa ævi kom á daginn að þessi kona las heimsbókmenntir á fjórum eða fimm tungumálum og spilaði músík sem var ættuð úr konsertsölum heimsborganna og hafði aldrei heyrst í endalausri flatneskju lággróðursins á gresjunni.

Lesa meira

Stuðningsmannalisti Jóns Baldvins: BLÓÐ, SVITI OG TÁR!

Áskorun til kjósenda frá Jóni Baldvini Hannibalssyni f.v. formanni Alþýðuflokksins.

Stærstu verkefni næsta kjörtímabils verða að losa þjóðina úr skuldafjötrum og að semja við Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess um not á traustum gjaldmiðli, sem getur tryggt okkur stöðugleika í framtíðinni.

Það er allra hagur – heimila og atvinnulífs – að þetta takist. Við þurfum öll lægri vexti af skuldum, lægra verð á lífsnauðsynjum og afnám verðtryggingar, sem við fáum með evrunni.

Í þessu prófkjöri þurfum við að velja fólk til forystu, sem við treystum, að fenginni reynslu, til að valda þessum verkefnum.

Reynslan er ólygnust dómari!

Ég vísa til eftirfarandi reynslu minnar:

Lesa meira

Um formannskjör í Samfylkingu: OPIÐ BRÉF TIL JÓHÖNNU

Frá Jóni Baldvini Hannibalssyni

Í framhaldi af þeirri ákvörðun Inigibjargar Sólrúnar Gísladóttur að draga sig í hlé frá stjórnmálum um sinn a.m.k., er ljóst að landsfundur SF verður að velja flokknum nýjan formann í aðdraganda kosninga til næstu tveggja ára.

Þú hefur þegar tekið að þér að leiða minnihlutastjórn SF og VG fram að kosningum. Í því felst að þar með hefur þú í reynd einnig tekið að þér það hlutverk að leiða Samfylkinguna í kosningabaráttunni. Enginn véfengir að í þessum erfiðu verkum nýtur þú óskoraðs trausts samherja þinna og meirihluta þjóðarinnar.

Lesa meira

EFNAHAGSLEGT FJÖLDASJÁLFSMORÐ?

Það er skammt stórra högga á milli. Michael Lewis skrifar listilega satíru (háðsádeilu) í Vanity Fair um að frjálshyggjutilraunin með Ísland hafi endað með efnahagslegu “fjöldasjálfsmorði.” Hann hafði varla fyrr sleppt orðinu en amerískur (frjálshyggju)hagfræðingur, Kenneth Rogoff, varar þessa allt að því dauðvona þjóð við því að binda trúss sitt við Evrópusambandið. Rogoff birti varnaðarorð sín í viðtali við Boga Ágústsson hjá RÚV. Hann notaði líka stór orð – gott ef hann sagði ekki líka “sjálfsmorðstilraun.” Um þetta má í besta falli segja að betra er illt umtal (í útlöndum) en ekkert.

Eftir stóryrðin fór það hins vegar fram hjá flestum að Rogoff taldi öðru máli gegna, ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu og evrusamstarfinu um skeið. Það staðfestir að prófessornum er, þrátt fyrir allt, ekki alls varnað. Rogoff var tíðrætt um að heimskreppan, sem átti uppruna sinn í frjálshyggjutilrauninni amerísku, væri að breiðast út um heiminn og að aðildaríki Evrópusambandsins hefðu ekki farið varhluta af því. Hins vegar hefur láðst að upplýsa manninn um það, að af þeim 30 þjóðum, sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu (27+3) , er aðeins ein, sem lent hefur í kerfishruni. Þar fer saman allt í senn: Hrun gjaldmiðilsins, hrun fjámálakerfisins og stjórnmálakreppa, sem sumir segja að nálgist að vera stjórnkerfiskreppa. Þetta land er Ísland.

Lesa meira

Prófkjör – netkosning

Prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir kosningarnar í lok apríl er þegar hafið og því lýkur laugardaginn 14. mars.

Kjörstaður verður opinn í kosningamiðstöð Samfylkingarinnar á Skólabrú við Austurvöll.
Kjörstaðurinn verður opinn 9. – 13. mars kl. 14 – 20 alla dagana. Laugardaginn 14. mars verður opið kl. 9 – 18.

Einnig er hægt er að greiða atkvæði á netinu.
Smellið hér til að greiða netatkvæði í prófkjörinu.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar eru: