Hvað eru þeir að segja? Þeir eru að afhjúpa Ameríska heimsveldið og heimsyfirráð þess. Þeir birta ógnvekjandi tölur um misskiptingu auðs og tekna innan heimsveldisins. Á fáeinum áratugum hefur “the corporate elite” hins fjölþjóðlega heimskapítalisma vaxið frá því að eiga 37% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna upp í það að eiga 66%, á sama tíma og að laun almennings hafa rýrnað að kaupmætti. Þessar tölur tala sínu máli um að í Bandaríkjunum ríkir auðræði (eins og Ragnar Önundarson hefur kallað það). Plutocracy heitir það og er andstæða lýðræðis. Af 100 stærstu hagkerfum heimsins eru 50 fjölþjóðlegir auðhringar. Þegar kalda stríðinu um heimsyfirráð við Sovétríkin lauk, tók við nýtt stríð. Það snýst um eignarhald eða forræði yfir auðlindum heimsins og stjórn á lýðnum í þjóðríkjunum þar sem örbirgð almennings er öflugasta vopnið.
Ísland: Saklaust fórnarlamb eða sjálfskaparvíti
Það voru góðir gestir í Silfri Egils 5. april. Michael Hudson og John Perkins lýstu af mælsku og eldmóði hættum frumskógarins í alþjóðlegum kapítalisma sem nú hafa lagt litla Ísland í einelti. Áður hafði Jón Helgi Egilsson sýnt fram á það með trúverðugum rökum að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að gefa Íslandi inn lyf sem passar ekki við sjúkdóminn. Ketill Sigurjónsson lögfræðingur varaði við glannalegri draumsýn um að þetta “muni allt saman reddast” þegar við byrjum að dæla olíu upp af Drekasvæðinu. Þeir Hudson og Perkins eru báðir svo róttækir í sinni sýn á heiminn, að hvorugum þeirra er boðið í mainstream fjölmiðla í Ameríku. “Ameríska lýðræðið” þolir ekki svona menn. Þess vegna eru þeir jaðrinum.