Valið sýnist við fyrstu sýn vera tiltölulega auðvelt. Hvernig má það vera að það getur vafist fyrir forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að gera upp hug sinn til þessa stærsta verkefnis samtímans hátt á annan áratug? Það er ekkert launungarmál að forystumenn íslensks atvinnulífs hafa hingað til talið sig eiga pólitískt athvarf í Sjálfstæðisflokknum. Hvernig má það vera að hin pólitíska forysta flokksins er svo veruleikafirrt, að hún skilur ekki lengur brýnustu þarfir atvinnulífsins? Eru þessir menn virkilega ófærir um að setja sig í spor þeirra manna, sem þurfa að reka fyrirtæki með hagnaði og ráða fólk í vinnu og borga því laun?
NÆSTA AFSÖKUNARBEIÐNI?
Skörp greining Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings, í Fréttablaðinu (11.03.) á tveimur framtíðarkostum þjóðarinnar ætti að vekja fólk til umhugsunar. Annars vegar óbreytt ástand með krónuna í farteskinu og meðfylgjandi gengisfellingar, afkomusveiflur, ofurvexti og reglubundnar neyðarráðstafanir þegar allt er komið í hönk. Hins vegar aðild að Evrópusambandinu og evrusvæðinu með traustan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, tiltölulega stöðugt verðlag og rekstrarskilyrði atvinnuvega sem skapa rými fyrir erlendar fjárfestingar, nýsköpun og þar með samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum.