Rifjum upp atburðarásina. Þann 14. febrúar flutti ég ræðu að beiðni minna gömlu félaga í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur um hrunið, orsakir þess og afleiðingar. Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að Samfylkingin gæti ekki látið það um sig spyrjast að hún gerði minni kröfur um pólitíska ábyrgð á hendur eigin forystumönnum en annarra. Sem flokksformaður og annar oddviti ríkisstjórnar Geirs Haarde, sem skildi eftir sig stærsta þrotabú Íslandssögunnar, hlyti Ingibjörg Sólrún að axla sína ótvíræðu pólitísku ábyrgð með því að víkja. Ella yrði Samfylkingin eini flokkurinn, sem borið hefði ríkisstsjórnarábyrgð á óförum lýðveldisins, sem byði fram óbreytta forystu.
“LOSER WINS?”
Menn hefur eitthvað greint á um það að undanförnu, hvort ég hafi haft erindi sem erfiði í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það væri að vísu synd að segja að ég hafi lagt mikið á mig við að snúa stríðlyndum sálum til fylgilags, því að ég lyfti ekki símtóli og kostaði svo sem öngvu til. Sjálfur kenndi ég útkomuna við hrakför daginn eftir að úrslit voru birt. Nú þegar heilög Jóhanna hefur, eftir nokkra eftirgangsmuni, tekið við krýningu sem sjálfkjörinn formaður á landsfundi SF eftir viku eða svo, er kannski ástæða til að endurskoða þetta mat.