“LOSER WINS?”

Menn hefur eitthvað greint á um það að undanförnu, hvort ég hafi haft erindi sem erfiði í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það væri að vísu synd að segja að ég hafi lagt mikið á mig við að snúa stríðlyndum sálum til fylgilags, því að ég lyfti ekki símtóli og kostaði svo sem öngvu til. Sjálfur kenndi ég útkomuna við hrakför daginn eftir að úrslit voru birt. Nú þegar heilög Jóhanna hefur, eftir nokkra eftirgangsmuni, tekið við krýningu sem sjálfkjörinn formaður á landsfundi SF eftir viku eða svo, er kannski ástæða til að endurskoða þetta mat.

Rifjum upp atburðarásina. Þann 14. febrúar flutti ég ræðu að beiðni minna gömlu félaga í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur um hrunið, orsakir þess og afleiðingar. Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að Samfylkingin gæti ekki látið það um sig spyrjast að hún gerði minni kröfur um pólitíska ábyrgð á hendur eigin forystumönnum en annarra. Sem flokksformaður og annar oddviti ríkisstjórnar Geirs Haarde, sem skildi eftir sig stærsta þrotabú Íslandssögunnar, hlyti Ingibjörg Sólrún að axla sína ótvíræðu pólitísku ábyrgð með því að víkja. Ella yrði Samfylkingin eini flokkurinn, sem borið hefði ríkisstsjórnarábyrgð á óförum lýðveldisins, sem byði fram óbreytta forystu.

Lesa meira

AUÐLINDIRNAR OG ESB

Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, heldur því fram í grein í þessu blaði (13.03.09.) að stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum Íslendinga þ.m.t. fiskimiðunum gangi í berhögg við sameiginlega fiskveiðistefnu bandalagsins (CFP), sem kveður á um forræði bandalagsins yfir efnahagslögsögu aðildarríkja utan 12 mílna. Ályktun Helga Áss er sú að stjórnarskrárákvæðið torveldi aðildarsamninga við ESB eða geri þá hreinlega ósamrýmanlega stjórnarskránni.

Almenna reglan er sú að aðildarríki ESB ráða sjálf yfir auðlindum sínum. Eignarréttarskipan á þeim er þeirra mál. Spánverjar ráða sínum ólífulundum; Bretar sinni Norðursjávarolíu; Pólverjar sínum kolanámum og Finnar sínum skógarlendum. Sameiginlega fiskveiðistefnan er undantekning frá þessu. Ástæðan liggur í augum uppi. Öldum saman hafa grannþjóðir við Norðursjó, sem nú eru innan ESB, nytjað sameiginlega fiskistofna á sameiginlegu hafsvæði. Til þess að mismuna þeim ekki er umsjá hins sameiginlega hafsvæðis hjá Evrópusambandinu, fremur en einhverri aðildarþjóðanna. Það ræðst af aðstæðum.

Lesa meira

BRANDARINN?

Hún hefur áratuga reynslu af því fletta ofan af alþjóðlegum mengjum fjárplógsmanna á æðstu stöðum. Höfuðpaurar bófakapitalismans, allt frá alþjóðlegum vopnasölum til pólitískra mútuþega, fölna þegar þeir heyra nafnið hennar nefnt. Margur stórbófinn, sem hélt hann sæti öruggur í samtryggingarneti og venslum auðs og (stjórn)valda, situr nú bak við lás og slá fyrir hennar atbeina. Nú er svo komið fyrir Íslendingum að kona með þennan feril að baki verður að teljast vera réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Liðin er sú tíð þegar Íslendingar trúðu því sjálfir að þeir byggju í óspilltasta þjóðfélagi heims.

Þetta er hún Eva Joly (öðru nafni Gro Farseth), norsk í húð og hár en frönsk að mennt og menningu. Merkilegt hversu mjög Íslendingar verða að leita á náðir Norðmanna þessi misserin: Seðlabankastjórinn, rannróknardómarinn Eva, og fjármálaráðherrann er jafnvel farið að dreyma upphátt um norsku krónuna. Hvað er næst?

Lesa meira

NÆSTA AFSÖKUNARBEIÐNI?

Skörp greining Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings, í Fréttablaðinu (11.03.) á tveimur framtíðarkostum þjóðarinnar ætti að vekja fólk til umhugsunar. Annars vegar óbreytt ástand með krónuna í farteskinu og meðfylgjandi gengisfellingar, afkomusveiflur, ofurvexti og reglubundnar neyðarráðstafanir þegar allt er komið í hönk. Hins vegar aðild að Evrópusambandinu og evrusvæðinu með traustan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, tiltölulega stöðugt verðlag og rekstrarskilyrði atvinnuvega sem skapa rými fyrir erlendar fjárfestingar, nýsköpun og þar með samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum.

Valið sýnist við fyrstu sýn vera tiltölulega auðvelt. Hvernig má það vera að það getur vafist fyrir forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að gera upp hug sinn til þessa stærsta verkefnis samtímans hátt á annan áratug? Það er ekkert launungarmál að forystumenn íslensks atvinnulífs hafa hingað til talið sig eiga pólitískt athvarf í Sjálfstæðisflokknum. Hvernig má það vera að hin pólitíska forysta flokksins er svo veruleikafirrt, að hún skilur ekki lengur brýnustu þarfir atvinnulífsins? Eru þessir menn virkilega ófærir um að setja sig í spor þeirra manna, sem þurfa að reka fyrirtæki með hagnaði og ráða fólk í vinnu og borga því laun?

Lesa meira

ÓJAFNAÐARFÉLAGIÐ

Árið 1997 fengu tveir amerískir nýfrjálshyggjupostular, Scholes, og Merton, Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Það var í viðurkenningarskyni fyrir að hafa leyst “umboðsmannsvandann.” Þeir fundu ráð til að draga úr þeirri áhættu hlutafjáreigenda sem í því felst að fela forstjórum – eins konar embættismönnum – ávöxtun fjármuna sinna.

Fídusinn var í því fólginn að árangurstengja umbun forstjóranna. Forstjóranum bar samkvæmt kenningunni að stjórna með eitt að markmiði: Að viðhalda og hækka verðgildi hlutabréfa. Til þess að halda forstjórunum við efnið þótti rétt að beintengja umbun þeirra við hlutabréfavísitöluna í kauphöllinni.

Lesa meira

PÓLITÍSK VORHREINGERNING

Það er ástæða til að óska verslunarfólki í Reykjavík og nýkjörnum formanni VR, Kristni Erni Jóhannessyni, til hamingju með hreingerninguna í félaginu. Ef þetta var vorhreingerning, þá var hún af illri nauðsyn snemma á ferðinni.

Fyrirfram gerðu fæstir sér vonir um að það tækist að velta Kaupþingsklíkunni úr stjórn félagsins. Kosningareglur félagsins eru flóknar og verulega letjandi fyrir virka stjórnarandstöðu. Almennt má segja að lýðræðið innan hinna fjölmennu stéttarfélaga sé þungt í vöfum. Fæst þessara félaga standa undir nafni sem lifandi félagsmálahreyfing, þar sem grasrótin lætur til sín taka. Í staðinn eru komnir fyrirgreiðslukontórar og sjóðvarsla. Það vekur því vonir um veglegra hlutverk fyrir verkalýðshreyfinguna í viðreisnaraðgerðumn eftir hrun, að uppreisnarhreyfing almennra félagsmanna í VR skyldi hafa tekist.

VR á sér sérstaka sögu. Í upphafi var þetta félagsskapur þar sem kaupmenn (atvinnurekendur) og starfsfólk þeirra (launþegar) störfuðu saman.

Lesa meira

JÁ, EN HVAÐ MEÐ VERÐTRYGGINGUNA?

Það er engin eftirspurnarþensla í hagkerfinu til að kynda undir verðbólgu. Þvert á móti. Framundan er samdráttur og jafnvel verðhjöðnun. Þes vegna er furðulegt að Seðlabankinn (eða IMF/AGS) skuli halda uppi 18% stýrivöxtum. Til hvers? Til þess að stöðva fjárflótta úr landi, segja þeir. Þess þarf ekki þar sem við búum við gjaldeyrishöft. Það er bannað að flytja fé úr landi nema með leyfi. Hves vegna er þá verið að halda uppi 18% vöxtum? Til þess að draga úr verðbólgu segja þeir. En það er engin verðbólga – það er verðhjöðnun framundan.

Þetta gengur m.ö.o. ekki. Bankakerfið er í lamasessi. Vextir eru allt of háir. Eigið fé fyrirtækjanna er á þrotum, enda sogast það með ofurvöxtunum inn í bankana. Hvers konar atvinnustefna er þetta? Um tíu fyrirtæki verða gjaldþrota á dag og tala atvinnuleysingja er komin yfir 16.000. Alls staðar í löndunum í kring um okkar er verið að lækka vexti. Stýrivextir Bank of England eru að nálgast núllið. Efnahagsvandinn núna er ekki að draga úr þenslu heldur að koma í veg fyrir samdrátt. Það þarf að lækka vexti og moka peningum í fyrirtækin til þess að halda uppi framleiðslu og atvinnu.

Lesa meira

SKULDAVANDI HEIMILANNA: LEITIN AÐ LAUSNUM

Það eru 80 þús. heimili í landinu. Eftir gengishrunið og verðbólguskotið í framhaldinu er svo komið að um fjórtán þúsund heimili eiga ekki eignir fyrir skuldum (18%). Fimmtungur heimilanna í landinu – um 16 þús. heimili – til viðbótar nálgast hratt að lenda í þessari stöðu. Það er því hvorki meira né minna en um 30.000 heimili sem eru á hættusvæði og þurfa á hjálp að halda.

Þessar upplýsingar komu fram í gær (10.03.) á reglulegum blaðamannafundi forsætis- og fjármálaráðherra. Upplýsingarnar eru fengnar úr gagnagrunni um fjármál heimilanna, sem Seðlabankinn hefur dregið saman með heimild persónuverndar. Í gagnagrunninum koma fram sundurliðaðar upplýsingar um tekjur og gjöld, eignir og skuldir, greiðslubyrði lána, vanskil o. fl. Tilvist þessa gagnagrunns auðveldar ákvarðanatöku um varnaraðgerðir varðandi fjárhagsvanda heimilanna í landinu.

Lesa meira

Stuðningsmannalisti Jóns Baldvins: BLÓÐ, SVITI OG TÁR!

Áskorun til kjósenda frá Jóni Baldvini Hannibalssyni f.v. formanni Alþýðuflokksins.

Stærstu verkefni næsta kjörtímabils verða að losa þjóðina úr skuldafjötrum og að semja við Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess um not á traustum gjaldmiðli, sem getur tryggt okkur stöðugleika í framtíðinni.

Það er allra hagur – heimila og atvinnulífs – að þetta takist. Við þurfum öll lægri vexti af skuldum, lægra verð á lífsnauðsynjum og afnám verðtryggingar, sem við fáum með evrunni.

Í þessu prófkjöri þurfum við að velja fólk til forystu, sem við treystum, að fenginni reynslu, til að valda þessum verkefnum.

Reynslan er ólygnust dómari!

Ég vísa til eftirfarandi reynslu minnar:

Lesa meira