Þetta voru spurningarnar sem málsvarar “gömlu flokkanna” fimm og tveggja nýrra framboða, áttu að svara kjósendum, skýrt og skilmerkilega, á frumsýningu kosningabaráttunnar í ríkissjónvarpinu eftir fréttir í gærkvöldi (3. apríl). Áður en uppfærslan hófst var sýnd heimildarmynd úr fórum fréttastofu um lífsreynslusögu nýríkra spraðurbassa sem brutu fjöregg þjóðar sinnar í vímukasti í spilavíti og skildu við allt í rjúkandi rúst. 17.000 atvinnuleysingjar og 3 til 4.000 einstaklingar af yngri kynslóðinni í leit að nýjum samastað í tilverunni; nýju athvarfi, nýju gistilandi, nýju föðurlandi, kannski?
Pólitík og pottormabylting: Frumsýning í sjónvarpssal
Hvernig á að byggja upp úr rústunum? Hvernig á að koma hjólum atvinnulífsins í swing? Hvernig verða til störf? Hvernig á að bjarga þeim heimilum sem sjá ekki út úr skuldum og eru að missa húsnæðið? Hverjir eiga í þessu ástandi að borga skattana sem þarf að innheimta til að greiða niður skuldirnar? Ráðum við við þetta ein? Eða þurfum við að semja við grannþjóðir okkar og lánardrottna um tímabundna aðstoð meðan við erum að klóra okkur upp úr skuldafeninu? Er ESB partur af lausninni? Hvað getur komið í staðinn fyrir krónuna, sem er farin að sökkva aftur, þótt hún sé bundin við bryggju?