Inngangur: Þann 24. feb. s.l. (á afmælisdegi móður minnar) birti Þóra Tómasdóttir, ritstjóri glanstímaritsins Nýs lífs, flenniuppslátt um „meinta kynferðislega áreitni“ mína við systurdóttur konu minnar. Tímaritið seldist upp og aðrir fjölmiðlar tóku málið upp í kjölfarið.
Daginn áður, 23. feb., barst mér njósn af þessum málabúnaði og bað Fréttablaðið að birta samdægurs grein „Mala domestica…“ þar sem ég skýrði málið út frá mínum bæjardyrum. Margir sáu ástæðu til að tjá sig um málið, bæði í prentmiðlum en þó einkum í netheimum. Það var ekki fyrr en þann 16. mars, sem ég birti grein hér á heimasíðu minni undir heitinu „Að gera hreint fyrir sínum dyrum“. Sama dag birti Bryndís, kona mín, grein í Fréttatímanum undir fyrirsögninni „Nú er nóg komið“, þar sem hún tók til varna fyrir hönd fjölskyldu okkar.
Halla Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar, brást harkalega við í grein í Fréttatímanum þann 23. mars (á afmælisdegi móður Bryndísar), þar sem hún veittist hart að móðursystur sinni. Engum, sem fylgdist með umfjöllun í fjölmiðlum og netheimum um þetta mál, gat blandast hugur um, að heitar tilfinningar bjuggu að baki. Á bak við þetta allt saman leyndist fjölskylda, sem var sundruð og í sárum. Margir höfðu orð á því, að þetta fjölskylduböl ætti ekkert erindi í fjölmiðla. Nær hefði verið að leita sátta með fulltingi sálusorgara. Nú er of seint að fást um það.
Margir létu í ljós undrun sína yfir þvi, hvers vegna þetta mál var matreitt ofan í fjölmiðla meira en áratug eftir að þau atvik áttu sér stað, sem urðu síðar tilefni klögumála. Hvers vegna einmitt núna? Hvers vegna allt þetta hatur, sem að baki bjó? Það er svo ekki fyrr en nú nýlega, nánar tiltekið 28. apríl s.l., sem Kolfinna dóttir mín birti grein á Facebook, þar sem hún segir söguna alla og svarar hispurslaust þeim spurningum, sem áður hafði verið ósvarað. Grein hennar: „Fjölskylduböl í fjölmiðlum – hvers vegna allt þetta hatur?“ , birtist hér á eftir „for the record“.
JBH