VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.
“Það er bjargföst sannfæring mín, að samábyrgt velferðarsamfélag í anda þess besta, sem við þekkjum að norrænni fyrirmynd, sé þróaðasta samfélagsskipan, sem enn hefur litið dagsins ljós á jörðinni… Hvergi í heiminum er betra að búa, hvergi er betra að ala upp börn, hvergi er betra að lifa lífinu og hvergi er betra að verða gamall heldur en í norrænu velferðarsamfélögunum.”
(Steingrímur J. Sigfússon: Við öll, bls. 200)<(i>
Ef maður vissi ekki, að ofangreind tilvitnun er úr stefnuskrárriti formanns Vinstri-grænna, gæti maður haldið, að formaður Alþýðuflokksins forðum daga væri að tala. Eða einhver innmúraður og innvígður eðalkrati af Norðurlöndum, sem hljómaði svona í íslenskri þýðingu. Alla vega er þetta sósíaldemókratískt manifesto – lífsskoðun jafnaðarmanns – í hnotskurn. Samt vill Steingrímur alls ekki gangast við því að vera krati. Hann vegsamar þá samfélagsgerð, sem er skilgetið afkvæmi sósíaldemókratískrar hugmyndafræði og hundrað ára baráttu jafnaðarmannaflokka og verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum. En samt vill hann ekki vera við þá kenndur.