ÚR FELUM
Geimvera, sem fengi það óöfundsverða hlutverk að fylgjast með borgarstjórnarkosningum í Reykjavík vorið 2006 og að senda skýrslu til geimkynnis síns, mundi trúlega eiga bágt með að fatta fídusinn í sjónarspilinu. Geimveran mundi álykta sem svo, að ritstjóri Morgunblaðsins væri fylgismaður Fidels Castro í heilögu stríði gegn fákeppnisklíku auðvaldsins. Og að nánustu bandamenn hans væri að finna í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins, undir forystu velviljaðs öldungs að nafni Vilhjálmur. Geimveran sæi í hendi sér, að þessi góði flokkur mætti ekkert aumt sjá og æli einkum önn fyrir börnum, konum, öldruðum og öryrkjum. Þetta bágstadda fólk ætti hins vegar undir högg að sækja hjá atvinnumiðlun Framsóknarflokksins ehf. , sem hefði lagt undir sig Heilbrigðisráðuneytið til þess að herja þaðan á varnarlaust fólk. Áróðursbæklingar Sjálfstæðisflokksins, leiknar sjónvarpsauglýsingar og annað kruðerí, litverpt úr bláu í bleikt, mundi styrkja geimveruna í þessum söguskilningi.