„Án Úkraínu verður Rússland aldrei drottnandi nýlenduveldi á ný“.
Zbigniew Brzezinski
Hvers vegna eru Eystrasaltsþjóðir ævinlega þakklátar Íslendingum fyrir stuðning okkar á örlagastundu við baráttu þeirra fyrir endurheimt sjálfstæðis?
Það er ekki (bara) vegna þess að Íslendingar hafi orðið fyrstir í einhverju kapphlaupi um viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á sjálfstæði þessara þjóða. Það er vegna þess að við vorum eina ríkið (sér í lagi innan NATO) , sem andmæltum afstöðu leiðtoga Vesturveldanna til sjálfstæðisbaráttu þeirra.
Hver var hún? Hún var sú, að ekki mætti segja eða gera neitt, sem tefldi völdum Gorbachevs sem forseta Sovétríkjanna í hættu, því að þá myndu „harðlínumenn“ (kommúnistar) ná völdum. Þar með væri yfirstandandi samningum um endalok Kalda stríðsins, allsherjar afvopnun, frelsun þjóða Mið-og Austur Evrópu undan oki Sovétríkjanna – og síðast en ekki síst sameiningu Þýskalands – teflt í tvísýnu.
Ég taldi það ekki góðri lukku stýra að binda allar vonir um árangur í þessum mikilvægu samningum við pólitísk örlög eins manns. Ég benti á, að vegna vonbrigða með lítinn árangur í reynd af umbótatali Gorbachevs, hefði hann í vaxandi mæli glatað stuðningi umbótaafla og orðið að reiða sig á stuðning harðlínumanna í Kreml, eins og síðar kom á daginn. Ég hélt því fram, að leiðtogar lýðræðisríkjanna mættu með engu móti fórna réttmætum væntingum Eystrasaltsþjóða um endurheimt sjálfstæðis, á svo hæpnum forsendum.
Lesa meira